Dacia hittir í mark
Dacia bílarnir frá Rúmeníu hafa slegið rækilega í gegn hjá Svíum og Bretum en 36 prósent nýrra seldra bíla Renault samsteypunnarí Svíþjóð eru Dacia bílar og 40 prósent í Bretlandi. Þessir ódýru og tiltölulega einföldu bílar seljast því betur í þessum löndum en margar þær tegundir sem vinsælastar hafa verið um langt árabil.
Dacia er að fullu í eigu Renault og átti að verða ódýrara merki og bílarnir einfaldari en Renault bílar. Dacia bílar eru sérstaklega hugsaðir fyrir A-Evrópu og önnur markaðssvæði með lágar meðaltekjur. Til framleiðslu bílanna leggur Renault til bílanna eldri tækni. Þannig eru undirvagnar eða botnplötur, drif, gírkassar og hjólabúnaður ættað frá eldri árgerðum Renault bíla. Þannig verður allur þróunar- og framleiðslukostnaður lægri og verð fullbyggðra bíla til neytenda lægra að sama skapi við það að framlengja með þessum hætti líf eldri tækni.
Margt í þessari eldri tækni og búnaði er þó enn í fullu gildi og þrautreynt, enda hefur það sýnt sig að Dacia bílar reynast ekki sérstaklega bilanagjarnir enda eru þeir einfaldari en margir sambærilegir en dýrari bílar og þannig færri hlutir í þeim sem geta bilað og verið til leiðinda. Greinilegt er að neytendur kunna að meta það því að í Bretlandi hafa Dacia bílar, aðallega Duster jepplingurinn, selst betur það sem af er árinu en Alfa Romeo, Jeep og Mitsubishi til samans. Þetta kemur fram í frétt á MSN cars.