Íslendingurinn dæmdur í Danmörku
Dómur hefur fallið í Danmörku í máli Íslendings sem ákærður var fyrir óðs manns akstur eða vanvidskørsel eins og það heitir í nýjum umdeildum dönskum lögum. Í héraðsdómi féllst að dómari á allar kröfur ákæruvaldsins, eignaupptöku bílaleigubifreiðar til ríkissjóðs, eins mánaðar óskilorðsbundið fangelsi, fjögurra ára ökuleyfissviptingu í Danmörku og sex ára endurkomubann til landsins.
Fjallað var um málið í FÍB-blaðinu á sínum tíma þar sem fram kom að Íslendingur á ferðalagi í Danmörku hefði verið tekinn fyrir ofsaakstur (vanvidskørsel) eins og það er orðað. Atvikið átti sér stað á Jótlandi skömmu fyrir jól 2021 en Íslendingurinn var þar í þeim erindagjörðum að heimsækja ættingja. Ökumaðurinn var tekinn á yfir 100 km hraða á klukkustund en deilt er um leyfilegan hraða á þeim stað sem hann var tekinn. Hámarkshraði hafði verið 60 km en hafði verið tekinn niður í 50 km að sögn dönsku lögreglunnar. Íslendingurinn var á bílaleigubíl sem lögregla haldlagði á staðnum í því skyni að gera hann upptækan með dómi – sem myndi gera það að verkum að bílaleigan missti bíllinn.
Bílaleigan gerir í framhaldinu þær kröfur að íslenski ökumaðurinn eða leigutakinn greiði bílinn sem metinn er á fjórðu milljón íslenskra króna. Þann 31. mars 2021 tók í gildi ný löggjöf í Danmörku þar sem lögreglan getur lagt hald á ökutæki ef það er notað til svonefnds ofsaaksturs. Á tæplega hálfu ári eftir að nýja löggjöfin var tekin upp hafði lögreglan lagt hald á 510 ökutæki á landsvísu og lagt fram 623 ákærur. Í 586 tilvikum var um ræða hreinan ofsaakstur.
Í viðtali í Morgunblaðinu við Gísla Tryggvason, landsréttarlögmanns og verjanda mannsins, kemur fram að mikil töf hafi orðið í málsferlinu í kerfinu. Töfin sem Gísli nefnir kom til af því að tölvukerfi danskra héraðsdómstóla varð óaðgengilegt í síðustu viku með þeim afleiðingum að dómsuppkvaðning, sem ráðgerð var á fimmtudaginn, frestaðist þar til í gær.
„Eina glætan í þessu er að hann er bara látinn greiða fimmtung málskostnaðar vegna þessa klúðurs alls, danska ríkið tekur restina. Að öðru leyti var því miður fallist á allar kröfur handhafa ákæruvalds, fangelsi, endurkomubann, sviptingu ökuréttinda og svo auðvitað stóra málið, upptöku bílsins,“ segir Gísli í viðtalinu við Morgunblaðið
Þetta seinasta er sérstaklega afdrifaríkt þar sem bílaleigan mun nú væntanlega gera kröfu á dómfellda um allt kaupverð bifreiðarinnar. Það mál þarf þó að reka á Íslandi.
„Já, nú þarf bílaleigan að sækja á leigutakann hér heima af því að þeir nýttu sér ekki það réttarfarshagræði að fá dóm fyrir sinni skaðabótakröfu í sakamálinu, rétt eins og hér á Íslandi er hægt að koma einkaréttarkröfum að í sakamáli í dönskum rétti en bílaleigan nýtti sér ekki þann kost. Þar með getum við tekið til varna fyrir íslenskum dómstólum komi sú krafa fram,“ segir Gísli.
Gísli segir ennfremur í viðtalinu við Morgunblaðið að við rekstur slíks máls muni reyna á hvort það standist lög að láta Íslending sem ekki talar dönsku skrifa undir leiguskilmála á flóknu dönsku lagamáli þar sem enn fremur sé vísað til nýrra ákvæða laganna um óðs manns akstur sem tóku gildi 31. mars 2021.
Frestur til að áfrýja málinu til millidómstigsins landsréttar í Danmörku, en þar eru tveir dómstólar, Eystri og Vestri landsréttur, er tvær vikur og telur Gísli ekki tímabært að spá neinu um hvort þeir varnaraðilar taki það skref.
„Skjólstæðingur minn hugsar það mál og veltir því fyrir sér hvort nóg sé komið í sakamálaþættinum, málið er alla vega ekki búið hvað snertir þetta stóra fjárhagstjón vegna upptöku bílsins. Þetta er auðvitað óvenjuleg löggjöf sem heimilar að bíll þriðja manns [bílaleigunnar] sé gerður upptækur vegna brots ökumanns,“ segir Gísli Tryggvason lögmaður að lokum af þessu sérstaka máli Íslendings í Danmerkurheimsókn sem dró dilk á eftir sér en mbl.is fylgist áfram með því sem koma skal,“ sagði Gísli Tryggvason í viðtalinu við Morgunblaðið.