Dagljós á öllum bílum

http://www.fib.is/myndir/Dagljos.jpg

Allir nýir bílar, strætisvagnar, rútur og vörubílar sem seldir verða í Evrópusambandinu og á Evrópska efnahagssvæðinu frá og með árinu 2011 verða að vera með dagljósabúnaði. Þá verður skylt að aka með dagljósum í öllum ríkjum innan sambandanna. Þetta var samþykkt á fundi í Evrópuráðinu sl. miðvikudag.

Ákvörðun Evrópuráðsins kemur í kjölfar nýlegrar rannsóknar sem sýnir að sé öllum velknúnum farartækjum í umferðinni ekið með dagljósum (Daytime Running Lights - DRL) verði umferðin mun öruggari á vegunum.

Dagljósabúnaðurinn sér um að kveikja á ljósunum um leið og bíllinn er gangsettur eða honum ekið af stað. Nýjustu dagljós á bílum nota um 30 prósent minni orku en hefðbundin aðalljós þannig að menn telja að nýja dagljósaskyldan hafi í för með sér nokkurn eldsneytissparnað,

Á Íslandi hefur það verið lögskylt um all langt árabil að aka með ljósum á daginn. Þar var farið að dæmi Svía og Dana sem tóku upp ljósaskylduna á áttunda áratugi liðinnar aldar.

Um það bil 40 þúsund slys verða á vegum innan ES á hverju ári og er markmiðið að fækka þeim um helming fyrir 2010 með ýmsum aðgerðum, m.a. þeim að kortleggja vegakerfið og útrýma slysastöðum, gera vegina almennt þannig úr garði að slysahættan minnki, gera merkingar skýrari og bílana sjálfa sýnilegri með t.d. dagljósum.