Dagsektir lagðar á dekkjaverkstæði
Neytendastofa gerði könnun í aprílmánuði 2019, á upplýsingagjöf dekkjaverkstæða. Skoðaðar voru vefsíður 15 dekkjaverkstæða á höfuðborgarsvæðinu. Könnunin snéri að ástandi verðmerkinga á vefsíðum fyrirtækjanna þar sem skylt er að gefa upp verð bæði þar sem þjónusta er kynnt og seld. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Neytendastofu.
Þessu til viðbótar var kannað hvort allar tilskyldar upplýsingar um dekkjaverkstæðin kæmu fram á vefsíðunum. Könnun Neytendastofu leiddi í ljós að ekkert dekkjaverkstæði uppfyllti öll þau skilyrði sem lög og reglur gera til upplýsingagjafar um þjónustuna. Neytendastofa upplýsti dekkjaverkstæðin í framhaldi um þær skyldur sem á þeim hvíla og fór fram á úrbætur.
Um miðjan maímánuð 2019 kannaði Neytendastofa aftur vefsíður dekkjaverkstæðanna. Kom þá í ljós að einungis eitt dekkjaverkstæði hafði gert viðeigandi úrbætur. Var því ljóst að grípa þyrfti til aðgerða til að ná fram úrbótum. Í kjölfarið var ítrekuð krafa um úrbætur.
Neytendastofa hefur nú lokið ákvörðunum um dagsektir gagnvart fjórum dekkjaverkstæðum sem ekki hafa svarað ítrekuðum bréfum stofnunarinnar.