Daihatsu yfirgefur Evrópu
Nýir Daihatsubílar eru ekki lengur í boði í Evrópu. Innflytjendur og söluaðilar Daihatsu fengu árið 2011 tilkynningu frá framleiðanda bílanna í Japan um að vegna hertra tæknikrafna til bíla í Evrópu í náinni framtíð og erfiðleika við að uppfylla þær, verði Evrópumarkaðurinn gefinn upp á bátinn frá og með 1. febrúar 2013. Engir nýir Daihatsubílar hafa verið seldir í Evrópu síðan. Í tilkynningunni sagði ennfremur að þeir bílar sem þegar væru í umferð yrðu á hinn bóginn þjónustaðir áfram eða eins lengi og þörf krefur.
Skýringar Daihatsu um hertar tæknikröfur þykja harla ótrúverðugar. Daihatsubílar og einstakir hlutar þeirra eru byggðir á tækni og íhlutum frá Toyota, enda er Toyota meirihlutaeigandi í Daihatsu og Toyota hefur ekki þótt hingað til vera í neinum tækniörðugleikum með bíla sína. Staðreynd er hins vegar að Daihatsubílar hafa selst afar illa síðustu ár og sölutregðan því vafalítið meginástæða þess að bílarnir eru teknir út af Evrópumarkaðinum. Daihatsubílar voru um tíma talsvert vinsælir hér á landi, einkum smábíllinn Charade sem bæði var traustur og endingargóður.