Daily Tourys frá Iveco er rúta ársins 2017
Nýja fólksflutningabifreiðin Daily Tourys frá Iveco Bus var í maí valin rúta ársins 2017 í flokki minni fólksflutningabifreiða (International Minibus of the Year 2017). Daily Tourys er í raun sami bíllinn og Iveco Daily sem BL selur hér á landi.
Iveco Daily hefur unnið til 14 alþjóðlegra verðlauna í flokki fólksflutningabifreiða og sendibíla frá 2014 þegar hann kom fyrst á Evrópumarkað. Munurinn á Daily og Tourys er sá að Tourys er framleiddur af Iveco, en Daily hjá Fenbiksbus í Serbíu sem hefur sérhæft sig í framleiðslu yfirbygginga á grunni atvinnubíla frá Iveco fyrir bæði sendibílamarkað og rútumarkaðinn.
Sérhæfing Feniksbus hefur skilað fyrirtækinu framúrskarandi árangri og miklum gæðum sem eru meginástæða þeirra alþjóðaverðlauna sem Iveco Daily hefur hlotið undanfarin rúm þrjú ár. Má því segja að verðlaunin sem Daily Tourys hlaut í maí séu í raun fimmtándu verðlaunin sem bíllinn hlýtur.
Það var evrópska fagtímaritið Bus, Coach and Minibus, sem sérhæfir sig í umfjöllunum um fólksflutningabifreiðar í Evrópu, sem útnefndi Daily Tourys rútu ársins 2017.
Blaðamenn frá átján fagtímaritum í Evrópu höfðu nokkra nýja bíla af þeirri gerð til umráða í þrjá daga þar sem þeir voru prófaðir við mismunandi aðstæður og bornir saman við sex helstu keppinauta sína á Evrópumarkaði.
Rútunum var m.a. ekið upp og niður brattar brekkur, á hraðbrautum, við þröngar aðstæður í þéttbýli og á mjóum vegum með kröppum beygjum. Var niðurstaða dómnefndar að það sem einkenndi bílinn væri í senn mjög vandaður frágangur á öllu sem tilheyrði sjálfri framleiðslunni sem og mikil áhersla á þægindi farþega.
Tom Terjesen, formaður dómnefndar, segir að kraftmikil díselvél Daily Tourys, sem uppfyllir nýjustu mengunarstaðla Evrópusambandsins, Euro 6, ásamt þeim besta gírkassa sem framleiddur hafi verið í þessum stærðarflokki fólksflutningabíla, hafi gert ökuferðina mjög eftirminnilega fyrir þá sem prófuðu bílinn á vegum dómnefndarinnar.