Dakar rallið 2015
37. Dakar rallið, erfiðasta og margbreytilegasta aksturkeppni veraldar stendur nú yfir en hún hófst þann 4. Janúar sl. í Buenos Aires í Argentínu. Keppnin stendur í hálfan mánuð og akstursleiðin er samtals níu þúsund kílómetrar og liggur til vesturs yfir Andesfjöll til Chile. Síðan er ekið til norðurs inn í Bólivíu og þaðan í suðausturátt til Buenos Aires á ný. Að vanda ægir öllu saman í þessari keppni því að keppt er á 138 bílum, 164 mótorhjólum, 48 fjórhjólum og 64 trukkum. Keppendur eru af fjöldamörgum þjóðernum og á aldrinum frá 18 til 73 ára.
En afhverju er þessi keppni í S. Ameríku kennd við borgina Dakar í Senegal í Afríku? Ástæðan er sú að þegar stofnað var til keppninnar árið 1977 var lagt upp frá París í Frakklandi. Farartækin voru síðan ferjuð yfir Miðjarðarhafið yfir á strendur N. Afríku. Þaðan var haldið áfram og endað í Dakar. Í áranna rás breyttust upphafs- og endastaðir keppninnar og að lokum fór svo að vegna ógnana ýmissa hópa og samtaka á hendur keppendum og aðstandendum keppninnar að hún var felld niður eitt árið en síðan flutt til S. Ameríku fyrir sex árum þar sem hún hefur síðan verið háð.
Keppnisfarartækin hafa alla tíð verið knúin brunahreyflum sem ganga ýmist fyrir bensíni eða dísilolíu. Að þessu sinni er einn keppnisbíllinn reyndar rafknúinn. Það er í fyrsta sinn í sögu þessarar keppni að rafbíll tekur þátt í henni sem á sinn hátt er tímanna tákn. Sjá má hér frétt um rafbílinn frá Aljazeera sjónvarpsstöðinni.
Fylgjast má með framgangi Dakar rallsins á sérstakri heimasíðu keppninnar.