Dakar rallið byrjað

Dakar rallið, ein fjölbreyttasta en jafnframt erfiðasta aksturskeppni veraldar hófst á öðrum nýjársdegi. Reyndar á Dakar rallið ekkert lengur skylt við borgina Dakar í Senegal í Afríku og hvað þá Parísarborg eins og upphaflega þegar ekið var milli Parísar og Dakar. Nú, eins og í fyrra fer keppnin fram í S. Ameríku og var lagt upp frá Buenos Aires í Argentínu. Alls hófu 273 farartæki keppni á öðrum nýársdegi; 156 mótorhjól, 28 fjórhjól, 137 bílar og 52 trukkar.

http://www.fib.is/myndir/Dakarleid-10.jpg
Keppnisleið Dakar-rallsins.

 Keppnin er hins vegar jafn fjölbreytt og áður því þar ægir saman mótorhjólum, fjórhjólum, bílum og trukkum og farið er um vegi og vegleysur, um byggðir, fjalllendi og eyðimerkur, alls rúma tíu þúsund kílómetra.

 Fyrsti áfangi keppninnar var ekinn frá Buenos Aires sem fyrr er sagt, til Cordoba. Annar áfanginn var svo ekinn í gær frá Cordova til La Rioja og síðdegis í dag að íslenskum tíma verður svo þriðji áfanginn til Fiambala ekinn. Keppendur aka í norðvesturátt til Chile og aka keppendur inn í Chile á morgun.

http://www.fib.is/myndir/Dakar-10_moto.jpg
 

 Það vakti nokkra undrun í fyrrasumar þegar Mitsubishi eftir margra ára sigurgöngu dró sig í hlé frá Dakarrallinu og leysti upp hið sigursæla keppnislið sitt. En engu að síður eru Mitsubishi bílar áberandi í rallinu og nokkrir af meðlimum liðsins eru áfram meðal keppenda eins og t.d. Stephane Peterhansel sem nú keppir fyrir BMW.