Dakar-rallið – lokaútkall
Keppnisliðin sem taka þátt í Dakarrallinu, erfiðustu rallkeppni veraldar, eru nú að leggja lokahönd á undirbúninginn og fínstilla bíla, tæki og mannskap áður en lagt verður af stað á nýjársdag nk.
Dakar rallið er kennt við borgina Dakar í Senegal í Afríku en upphaflega keppnisleiðin var frá París í Frakklandi til Dakar. Dakar rallið er ekki lengur haldið í Evrópu og Afríku heldur er keppnin flutt til S. Ameríku og verður háð þar í þriðja sinn. Keppnisleiðin liggur frá Buenos Aires í Argentínu á Atlantshafsströnd S. Ameríku til vesturs yfir eyðimerkur og sjálfan Andesfjallgarðinn yfir á Kyrrahafsströnd Chile og aftur til baka. Alls er ökuleiðin um 10 þúsund kílómetrar, þar af er um helmingur vegalengdarinnar sérleiðir. Ekki er bara keppt á torfærubílum heldur líka mótorhjólum, fjórhjólum og stórum trukkum. 430 farartæki eru skráð til keppni að þessu sinni; 146 bílar, 183 mótorhjól, 33 fjórhjól og 68 trukkar.
Að venju hefst keppnin á nýjársdag og liggur leiðin um vegi og vegleysur yfir eyðimerkur og fjöll. Hæstu fjallvegirnir sem leiðin liggur um eru í yfir fjögurra kílómetra hæð. Það var Spánverjinn og rallmeistarinn Carlos Sainz sem sigraði í fyrra á VW Touareg. Liðsfélagar hans tveir í VW liðinu urðu í öðru og þriðja sæti. Volkswagen teflir nú fram alls fjórum bílum og er það nú spurning hvort VW tekst að taka þann sess sem Mitsubishi hafði um árabil í þessari keppni er Mitsubishi bílar röðuðu sér í efstu sætin ár eftir ár.
En BMW X-Raid liðið ætlar sér líka þann sess. Helsti ökumaður þess er Frakkinn Stephane Peterhansel sem áður var mjög sigursæll hjá Mitsubishi og þar áður á mótorhjóli. Hann mun vera sá sem oftast hefur hreppt fyrsta sætið í Dakarralli á bæði bílum og mótorhjólum.
En nú er skráð til keppni ný bíltegund – Mini. Það er BMW X-Raid liðið sem teflir einum Mini fram í keppninni. Þetta er Mini Countryman, sérbyggður sem eyðimerkur-rallbíll hjá bílasmiðjunni Prodrive, sem er sérhæfð í því að útfæra og efla fjöldaframleidda bíla. Countryman keppnisbíllinn er búinn togmikilli en mjög sparneytinni dísilvél og verður spennandi að sjá hvernig bílnum á eftir að vegna.
Þá má búast við því að Bandaríkjamenn láti til sín taka aftur. Robbie Gordon sem í fyrra keppti á Hummer og var meðal þeirra fremstu þá, ætlar örugglega ekki að slá slöku við nú. Hann kemur nú til leiks með tvo Hummer bíla og keppir sjálfur á öðrum þeirra.
Dakar rallið er talið vera sú bílakeppni þar sem búast má við flestum óvæntum uppákomum og þar er ekkert gefið fyrirfram. Það getur enginn verið viss um sigur fyrirfram né heldur að hann sleppi heill úr hildarleiknum. Engin önnur bílakeppni getur „státað“ af jafn mörgum óhöppum og slysum og Dakar rallið og á undanförnum áratug hafa yfir 20 manns látið lífið, bæði þátttakendur og áhorfendur. Þá vofði einnig yfir keppendum og starfsfólki keppninnar hryðjuverkaógn meðan hún fór enn að stærstum hluta fram í Afríku og hryðjuverkamenn gerðu nokkrar morðárásir á keppendur og starfsfólk. Það var meginástæða þess að keppnin var flutt frá Afríku til S. Ameríku.
Sýnt verður frá keppninni í sjónvarpi í yfir 150 löndum og einnig verður hægt að fylgjast með henni á Netinu. Hér á landi nást útsendingar Eurosport sjónvarpsstöðvanna frá keppninni.