Dakar rallinu 2008 aflýst
04.01.2008
Ekkert verður af Dakar rallinu í ár vegna morða og morðhótana hryðjuverkamanna.
Mótshaldarar Dakar rallsins 2008 aflýstu fyrr í dag keppninni sem hefjast átti á morgun, laugardag. Í tilkynningu sem send var út frá Lissabon í Portúgal fyrr í dag segir að ástæðan sé ótryggt alþjóðlegt stjórnmálaástand, morð hryðjuverkamanna tengdum Al Queda á fjórum frönskum ferðamönnum í Máritaníu á aðfangadag og morðhótanir sem borist hafa keppendum og keppnishöldurum.
Í fréttinni segir að mótshaldarar hafi ráðfært sig við frönsk stjórnvöld og franska utanríkisráðuneytið sérstaklega, sem hafi eindregið ráðlagt að aflýsa keppninni. Þar sem það sé æðsta skylda aðstandenda keppninnar að tryggja sem best öryggi keppenda, borgara þeirra landa sem keppnin fer um, og allra annarra sem að keppninni koma, þá hafi þessi ákvörðun verið tekin með þungum huga.
Keppninsstjórnin fordæmir hryðjuverkaógnina sem nú hefur gert að engu heils árs hörkuvinnu mikils fjölda fólks við undirbúning keppninnar. Síðan segir: „Dakar rallið er tákn og ekkert getur eyðilagt tákn. Aflýsing keppninnar nú mun ekki eyðileggja framtíð Dakar rallsins. Keppnisstjórnin mun á næstu mánuðum, trú sínu hlutverki, leita leiða til að koma á fót á næsta ári nýjum viðburði- nýju ævintýri fyrir alla þá sem unna torfærurallkeppni.“