Dakarrallið í S. Ameríku
Svíar munu taka þátt í næsta Dakarralli sem hefst að venju á nýjársdag næstkomandi. Eins og undanfarin ár fer keppnin fram í S. Ameríku. Sænski keppnisbíllinn, fylgdarbílar, varahlutir og búnaður er þegar lagt af stað frá Le Havre í Frakklandi áleiðis til S. Ameríku. Fjárhagsáætlun verkefnisins er upp á 10 milljónir sænskra króna eða 175 millj. ísl. kr.
Sænska keppnisúthaldið kallast Pewano og bíllinn er sérsmíðaður og kallast Pewano XC60 RR og er byggður á Volvo V60. Greinilegt er að Svíarnir sem standa að þessu ætla sér ekki neitt lítið því að ökumaðurinn er þrautreyndur Dakar-ökuþór sem um árabil hefur verið meðal þeirra efstu í þessari erfiðu keppni. Sænskur er hann vissulega ekki því að hér er um að ræða S. Afríkumanninn Alfie Cox. Ekki er aðstoðarökumaðurinn heldur sænskur heldur þýskur; Jürgen Schröder.
Dakar rallið hefst sem fyrr segir á nýjársdag í Buenos Aires í Argentínu. Ekið er til vesturs þvert yfir meginlandið, um eyðimerkur og yfir Andesfjöll til Chile og aftur til baka. Keppnin tekur 15 daga.