Danir bíða í biðröð eftir VW Up!
Hátt í þrjú þúsund manns eru nú á biðlistum eftir nýja smábílnum Volkswagen Up í Danmörku. Biðröðin lengist jafnt og þétt og biðtími eftir slíkum bíl er nú 3-4 mánuðir.
Volkswagen Up hefur hlotið talsvert lof hjá evrópskum bílablaðamönnum sem reynsluekið hafa bílnum. Þá spillir ekki fyrir honum í Danmörku þar sem nýir bílar eru afar dýrir vegna mjög hárra skráningargjalda, að Volkswagen hefur verðlagt bílinn meðal þeirra ódýrustu sem þar fást. VW Up kostar þannig frá tæpum 90 þúsund dönskum krónum sem er rúmlega 2 milljónir ísl. kr.
Þá spillir það ekki heldur fyrir áhuga Dana á bílnum að útreiknaður reksturskostnaður hans er sá lægsti fáanlegi, eða sem nemur 1,28 DKR eða rétt undir 30 ísl. kr. á hvern ekinn kílómetra. Reksturskostnaðurinn er reiknaður út frá þáttum eins og varahlutaverði, verði trygginga, sköttum, eldsneytisverði, eyðslu o.fl. VW Up var kynntur á opnu húsi á flestum sölustöðum VW bíla í Danmörku um síðustu helgi og þar undirrituðu rúmlega 2100 manns kaupsamning um nýjan VW Up. Fjölmiðlafulltrúi innflytjanda Volkswagen í Danmörku segist aldrei áður hafa fundið annan eins áhuga fyrir nýjum VW bíl eins og þessum.
Eftir að Volkswagen gaf út verðið á VW Up hafa smábílar af öðrum tegundum lækkað hver af öðrum í verði þannig að verðstríð virðist skollið á í ódýrasta kantinu. Þegar þetta er ritað er það smábíll af Citroen gerð sem er sá ódýrasti í ríki Margrétar Þórhildar Danadrottningar og kostar undir tveimur milljónum ísl. kr.