Danir hafna sænskum áfengismörkum
Talsmenn umferðarmála tveggja stærstu flokkanna í danska þinginu; Sósíaldemókrata, sem eru stjórnarflokkur og Venstre sem er í stjórnarandstöðu, hafa hafnað frumvarpi um að lækka leyft refsimörk áfengis í blóði ökumanna úr 0,5 í 0,2 prómill. Margur Daninn andar því léttar að geta vænst þess að fá sér einn venjulegan bjór eða eitt vínglas án þess að fara yfir mörkin.
Tillagan um að lækka leyft áfengismark er ein af mörgum breytingatillögum sem danska umferðarráðið lagði fram sl. vor. Tillögurnar voru til umræðu á fjölsóttum umferðardögum í háskólanum í Álaborg nýlega. Þar sagði Kristian Phil Lorenzen talsmaður umferðarmála hjá Venstre að það væri nú alveg lágmark að fólk hefði svigrúm til að fá sér einn öllara þótt það væri á bíl. Það hefði aldrei fundist neitt sem benti til þess að það yki umferðaröryggi að lækka áfengismörkin niður fyrir 0,5 prómill.
Umferðartalsmaður Sósíaldemókrata, Rasmus Prehn tók í sama streng og sagði að 0,2-0,5 prómill í blóði ökumanna skapaði enga hættu. „Við kærum okkur ekkert um að innleiða einhverja sænska siði hér,“ sagði Prehn. (Í Svíþjóð gildir 0,2 prómilla hámark).
Í rannsóknaskýrslu frá DTU (Danmarks Tekniske Universitet) sem birt var fyrir nokkrum árum, kemur fram að ekkert bendi til þess að slysatíðni sé hærri hjá fólki með 0,2-0,5 prómill í blóði en hjá þeim með ekkert eða 0,0 prómill. FDM, systurfélag FÍB er sammála talsmönnum Sósíaldemókrata og Venstre í málinu og telur enga ástæðu til að lækka refsimörkin.