Danir kaupa smábíla
Danir hafa löngum sóst fremur eftir því að eignast litla og meðalstóra bíla en stóra. Þannig hefur glöggt fólk lengstum talið sig sjá verulegan mun á bílum á vegum og götum við það eitt að bregða sér yfir Eyrarsundið til Svíþjóðar. Svíar hafa lengstum fremur valið stærri bílana og algengustu bílar þar hafa lengi verið meðalstórir og stórir Volvo og Saab fólksbílar.
Vitanlega hefur skattastefna í þessum tveimur grannlöndum ráðið miklu um bílaval almennings. Í Danmörku leggjast mjög há skráningargjöld á nýja bíla og því hærri sem bílarnir eru stærri og betur búnir hverskonar þæginda- og jafnvel öryggisbúnaði. Í Svíþjóð er lítið um slíkt og raunar fáir aðrir skattar lagðir á kaup nýrra bíla önnur en virðisaukaskattur.
Danmörk bjó um talsvert árabil við ágætan efnahag og þá tóku bílarnir nokkuð að stækka hjá Dönum. En eftir að harðna tók á dalnum upp úr 2007 fóru Danir í sívaxandi mæli að endurnýja heimilisbíla sína yfir í litla, ódýra bíla og minnstu Suzukibílarnir og fleiri líkir bílar af öðrum tegundum tóku að klifra upp í efstu sæti sölulistanna. Í nýliðnum febrúarmánuði var þetta mjög skýrt því að rúmlega helmingur allra nýskráðra bíla voru smábílar sem kosta undir 100 þúsund dönskum krónum eða undir rúmum 2,2 milljónum ísl. kr.
Söluhæsti bíllinn í Danmörku á sl. ári er Chevvrolet Spark sem kostar 84.000 dkr. eða undir 1,9 milljónum ísl. kr. í öðru sæti varð nokkru stærri bíll af sömu tegund; Chevrolet Aveo en hann kostar 3,8 milljónir ísl. kr. Í þriðja sæti varð Toyota Aygo sem kostar frá tæplega 1,8 millj. ísl. kr. Kia Picanto kom svo í fjórða sætið en ódýrasta útgáfa hans kostar í Danmörku rétt undir tveimur milljónum ísl. kr.
Opel Insignia - bíll í stærri milliflokki fólksbíla og vinsæll „forstjórabíll“ í Danmörku er áttundi söluhæsti bíllinn í Danmörku á liðnu ári. Hann kostar þar frá 6,7 milljónum íslenskra króna.
Í töflunni sést hvaða tegundir og gerðir bíla seldust best í Danmörku í sl. febrúarmánuði og hvað þeir kosta í ísl. krónum.
10 mest seldu bílarnir í febrúar |
Tegund og gerð |
Fjöldi |
Verð frá (ísl. kr.) |
1 |
Chevrolet Spark |
609 |
1.886.000 |
2 |
Chevrolet Aveo |
461 |
3.808.000 |
3 |
Toyota Aygo |
459 |
1.792.000 |
4 |
Kia Picanto |
421 |
1.970.000 |
5 |
Kia Rio |
386 |
2.690.000 |
6 |
Hyundai i30 |
378 |
4.144.000 |
7 |
Opel Corsa |
295 |
2.690.000 |
8 |
Opel Insignia |
293 |
6.686.000 |
9 |
Fiat 500 |
285 |
3.785.000 |
10 |
Peugeot 107 |
284 |
1.792.000 |