Danir með fornbíladellu
Viðskipti með fornbíla í Danmörku hafa margfaldast á örfáum árum og skipta nú milljörðum í íslenskum krónum talið. Samtök fornbílaklúbba í Danmörku sem kallast Motorhistorisk Samråd áætla að á sl. fjórum árum hafi Danir keypt sér fornbíla og forn-mótorhjól fyrir hátt í milljarð danskra króna og síðan eytt um hálfum milljarði í að gera ökutækin í stand. Talsmaður samtakanna segir við Motormagasinet að ástæðan sé einkum betri efnahagur Dana.
Fornbíla- og -mótorhjólaklúbbar í Danmörku eru fjölmargir og algengt að eigendur einnar tegundar forn-farartækja sameinist í sérstökum klúbbum. Stærstu klúbbarnir þar tengjast flestir breskum bílum frá gullöld bresks bílaiðnaðar frá því eftir stríð og fram undir níunda áratug 20. aldar. Vinsælastir eru sportbílar eins og Lotus, MG, Triumph, Jaguar og Morgan.
Formaður danska Lotus klúbbsins segir við blaðið að gríðarleg fjölgun hafi orðið í klúbbnum í kjölfar sprengingar í innflutningi gamalla Lotus sportbíla til Danmerkur. Síðustu tvö árin hafi verið skráðir jafn margir Lotus bílar í Danmörku eins og áður var á 15 ára tímabli.
Jaguar XKE - vinsæll meðal danskra fornbílamanna.