Danir spara eldsneytið
Danir virðast vera orðnir meðvitaðri um ökumennsku sína en áður. Þeir hugsa sig betur um við bílakaup og veðja á sparneytnari bíla en áður þegar þeir fá sér nýjan bíl. Nýjustu bílar Dana eru bæði léttari og neyslugrennri á eldsneytið en þeir bílar sem Danir keyptu nýja á síðasta ári.
Þeir bílar sem keyptir hafa verið til nota á dönskum heimilum á þessu ári komast að meðaltali 18 kílómetra á hverjum lítra eldsneytis. Það er 11 prósentum lengra en þeir heimilisbílar ná að meðaltali, sem keyptir voru nýir árið 2007. Fyrirtækin eru líka orðin sparari á eldsneyti því að nýju fyrirtækjabílarnir komast að meðaltali 17 kílómetra á lítranum sem er 14 prósentum lengra en nýju fyrirtækjabílarnir á síðasta ári gerðu.
Ritzau fréttastofan greinir frá þessu og segir að skýringarinnar sé fyrst og fremst að leita í breyttum skráningargjöldum á nýja bíla. Við gjaldabreytingu sem varð í lok aprílmánaðar á síðasta ári urðu léttir og orkunýtnir bílar ódýrari en þyngri og eldsneytisfrekari bílar urðu dýrari. En jafnframt þessu hafi ofurhátt eldsneytisverð haft þau áhrif að bæði einstaklingar og bílflotarekendur eru orðnir meðvitaðri um eyðslu bíla og orkunotkun.