Danski Skattmann leggur stein í götu Opel Ampera
Opel Ampera (Chevrolet Volt) sem General Motors skilgreinir sem rafbíl með innbyggðri rafstöð, getur samkvæmt upplýsingum framleiðanda komist rúma 62 kílómetra á hverjum bensínlítra. Honum er stungið í samband við straum yfir nótt og á að komast 60 kílómetra á rafhleðslunni. En þegar rafmagnið er að verða búið fer 1,4 lítra bensínmótor sjálfvirkt í gang og knýr rafal sem hleður inn á geymana. Þannig stöðvast bíllinn ekki þótt lítið sé á geymunum.
Bíllinn er eingöngu knúinn áfram af rafmagni frá líþíumgeymum hans. Rafmagnið á geymana er svo ýmist fengið úr rafmagnstengli eða frá innbyggðu rafstöðinni og að því samanlögðu er uppgefin bensíneyðsla bílsins um 1,7 lítrar á hundraðið.
Bíllinn fer senn í fjöldaframleiðslu og kemur á Evrópumarkað innan tveggja ára. Líklegt þykir að verð hans við verksmiðjudyr verði ca fimmtungi til fjórðungi hærra en á hefðbundnum bíl af svipaðri stærð, í það minnsta fyrst í stað. Í þeim löndum sem leggja tolla, vörugjöld eða skráningargjöld á bíla mun upphæð þessara gjalda ráðast af því hvort Opel Ampera/Chevrolet Volt verður skilgreindur sem rafbíll eða bensínbíll.
Á Íslandi eru ekki lögð vörugjöld á nýja rafbíla eða bíla sem ganga fyrir innlendri orku. Sömu sögu er að segja í Danmörku um rafbíla. Á þá eru ekki lögð ofurhá skráningargjöld eins og á hefðbundna bíla.
En nú er allt útlit fyrir Opel Ampera verði svo dýr í Danmörku að hann verði nánast óseljanlegur. Það er vegna þess að skattayfirvöld þar hafa skilgreint bílinn sem bensínknúinn bíl og því verða lögð á hann 180 prósent skráningargjöld. Frá þessum gjöldum er að vísu veittur afsláttur sé bíllinn sérstaklega sparneytinn. Líklegt verð Ampera þegar búið er að veita sparneytniafsláttinn verður um 470 þúsund danskar krónur en það svarar til um átta milljóna ísl. króna. Það er upphæð sem venjulegt fjölskyldufólk í Danmörku verður seint fáanlegt til að greiða fyrir heimilisbíl.