Danskir bifvélavirkjar aka um á vondum bílum
27.04.2007
Fyrir margt löngu var það haft í flimtingum að bifvélavirkjarnir ækju um á elstu og verstu druslunum, byggingamenn byggju í hálfbyggðum og hálfköruðum húsum og börn uppeldisfræðinga væru þau óþekkustu í skólunum. Ekkert skal hér fullyrt um sannindi þessa, en ný rannsókn á högum danskra bifvélavirkja leiðir í ljós að þeir hinn dæmigerði bifvélavirki er láglaunamaður sem hefur ekki efni á að eignast nýjan og góðan bíl af millistærð – bíl sem búinn er þeim öryggisbúnaði sem sjálfsagur þykir nú til dags og bifvélavirkinn starfar daglega við að lagfæra fyrir viðskiptavini sína. Frá könnuninni er greint í dagblaði danska iðnaðarins í dag. Hún var unnin af fyrirtæki sem heitir Zapera fyrir samtök danskra málmiðnaðarmanna. 1.879 manns svöruðu könnuninni.
Formaður stéttarfélags danskra bifvélavirkja segir að það sé óviðunandi að venjulegt launafólk skuli ekki hafa efni á bílum sem búnir eru sjálfsögðum öryggisbúnaði og neyðist því til að snúa sér að ódýrari og þar með óöruggari bílum. -Bílakaup fjölskyldnanna hafa félagslega slagsíðu- segir formaðurinn, Jan Rasmussen, -og við horfum upp á að meira að segja bifvélavirkjar neyðast til að aka í gömlum og slitnum bílum enda þótt þeir eigi kost á starfsmannaafsláttum af bæði bílakaupum og viðhaldi hjá vinnuveitendum sínum,- segir Rasmussen við Industriens Dagblad.
Þessi könnun er samhljóða niðurstöðum FDM, systurfélags FÍB sem bent hefur á að fjölskyldur með árstekjur undir rúmlega fórum milljónum ísl. kr. neyðist til að velja ódýrari og vanbúnari og þar með óöruggari bíla en æskilegt sé. Því lægri sem tekjurnar séu, þeim mun eldri og verri er bíllinn. Hjá fjölskyldum með árstekjur undir 4,2 milljónum ísl. kr er heimilisbíllinn að meðaltali 10,3 ára gamall. Hjá fjölskyldum með tekjur yfir 4,2 milljónum ísl. kr. er meðalaldur bílsins 6,6 ár. Árstekjur danskra bifvélavirkja eru að meðaltali í kringum 3,9 milljónir ísl. kr. Samkvæmt athugunum sem EuroNCAP og Folksam í Svíþjóð hafa gert hvorir í sínu lagi eru gamlir bílar miklu óöruggari en nýlegir og nýir bílar eru almennt.
Mjög háir skattar eru á lagðir á nýja bíla í Danmörku. Meginreglan er sú að á innkaupsverðið leggst 180% skráningargjald og þar ofan á kemur svo 25% virðisaukaskattur. Samkvæmt nýjum reglum um þessar álögur er veittur sérstakur afsláttur í hlutfalli við eldsneytiseyðslu og CO2 útblástur. Á hinn bóginn eru svo lagðar sérstakar álögur á ýmsan „aukabúnað“ eins og sjálfskiptingu, hljómtæki o.fl. þannig að vel búnir bílar geta orðið óheyrilega dýrir.