Danskur jeppaklúbbur í dauðateygjunum

http://www.fib.is/myndir/Drullumall.jpg

Þótt mörgum Íslendingnum finnist ef til vill það heldur ólíklegt, þá fyrirfinnst í hinni flötu Danmörku jeppaklúbbur svolítið í ætt við hinn íslenska 4x4 klúbb og nefnist hann SORD eða Scandinavian Off-Roaders Denmark.

Klúbburinn á nú í slæmum tilvistarvanda að því er fram kemur í Motormagasinet og hefur verið kallað til aukaaðalfundar til að koma saman nýrri stjórn sem stöðvað gæti mikinn meðlimaflótta. Á aðeins einu ári hefur meðlimum klúbbsins fækkað úr 180 í einungis 110.

Formaðurinn segir í samtali við Motormagasinet að starfsemi á vegum klúbbsins hafi heldur nánast engin verið því að búið sé að útiloka hann frá tveimur æfinga- og torfærusvæðum danska hersins sem klúbburinn hafði fengið aðgang að til æfinga og keppni í torfæruakstri.

Formaður klúbbsins segir að herinn hafi lokað á aðgang klúbbmeðlima vegna þess að einhverjir sjálftökumenn höfðu verið að stelast inn á heræfingasvæðin og þá í ofanálag verið að keyra um á stöðum sem allur aðgangur að var harðbannaður. Þetta hafi aðallega verið fjórhjóla- og krossmótorhjólamenn og flestir ótengdir jeppaklúbbnum og algerlega lausir við virðingu fyrir náttúru og dýralífi. Þetta framferði hefði svo leitt til þess að herstjórnin skrúfaði algerlega fyrir aðgang utanaðkomandi að æfingasvæðum sínum. Lokunin hefði svo haft þau áhrif á félagsmenn að þeir hættu að sjá nokkurn tilgang í því að vera í klúbbnum og flótti brostið í liðið.

SORD er yfir 30 ára gamall. Upphaflega voru bílar klúbbmeðlimanna aðallega gamlir Willys jeppar, en nú eru það allskonar jeppar allt að 2850 kg að eigin þyngd.