Danskur ofursportbíll
Tvö eintök danska sportbílsins Zenvo ST1 eru til sýnis á bílasýningunni í Genf sem nú stendur. Bílarnir bera framleiðslunúmerin 8 og 9. Zenvo er meðal fimm aflmestu og hraðskreiðustu götubíla sögunnar en hámarkshraðinn er 375 km á klst. og gæti verið meiri ef gangtölva bílsins fengi ekki að ráða. Vélin er V8 með tveimur túrbínum og hestöflin eru 1104.
Framleiðsla á Zenvo hófst 2007 en fyrstu kaupendurnir fengu bíla sína afhenta árið 2013. Kannski er fullmikið að tala um framleiðslu og nær að tala um bílasmíði því að árleg framleiðsla skiptir einungis fáum bílum og hver þeirra kostar miklar fjárhæðir.
Maðurinn á bak við þessa dönsku bílaframleiðslu heitir Troels Vollertsen og hann vill ekki selja hverjum sem er bílana sína. Hann segist kanna bakgrunn og ökuferil áhugasamra kaupenda vegna þess að svoa gríðarlega öflugt og vandað ökutæki hafi ekkert í hendurnar á rugluðu fólki að gera. Þeir sem vilji eignast Zenvo verði að koma í heimsókn fyrst og kynna sér bílinn og byggingu hans frá fyrstu hendi.