Danskur sigur á Le Mans
Daninn Tom Kristensen sigraði í 24 tíma Le Mans kappakstrinum í Frakklandi um helgina. Þetta var í níunda sinn sem Tom Kristensen sigrar í þessari heimsþekktu keppni. Það varpaði skugga á hana að þessu sinni að einn keppenda, Daninn Allan Simonsen, lét lífið. Hann missti stjórn á bíl sínum, skall á vegriði á miklum hraða, hlaut mikla innri áverka sem drógu hann til dauða.
Tom Kristensen ók Audi. Hann náði strax síðdegis á laugardag góðu forskoti á aðra keppendur en Toyotabílar samnefnds liðs drógu á hann jafnt og þétt, einkum vegna þess að þeir þurftu sjaldnar að stansa til að taka eldsneyti en Audi bíll Danans. Sigurinn var því ekki í höfn fyrr en undir lokin þegar Kristensen hafði lokið sínum 344. hring. Þá nam forskot Kristensens aðeins einum hring á næsta bíl sem var Toyota.
Nú eru 90 ár síðan 24 stunda Le Mans kappaksturinn fór fram í fyrsta sinnið og keppnin um helgina var sú 81. í röðinni.