Danskur þingmaður í bílasportið
Karsten Nonbo.
Danski þingmaðurinn Karsten Nonbo, formaður danska umferðaröryggisráðsins og sá þingmanna sem lætur sig umferð og umferðaröryggi hvað mest varða, tekur á morgun, föstudag, þátt í sínu fyrsta ralli, orðinn 57 ára gamall.
Rallið er sparakstursrall, þannig að ekki mun sérstaklega reyna á hæfni þingmannsins í hraðakstri en þeim mun meira á útsjónarsemi hans og þekkingu á innviðum bíla og hæfni til að komast sem lengst á hinum dýru eldsneytisdropum.
Keppnin sem Karsten Nonbo tekur þátt í er eina sparaksturskeppnin sem haldin verður í Danmörku á þessu ári. Það er bílaklúbbur Suður Sjálands sem skipuleggur hana og helsti kostunaraðili er Suzuki sem fyrir viðvikið fær nafn sitt í heiti keppninnar en hún nefnist Suzuki Eco Rally 2009.
Karsten Nonbo keppir á nýjum Suzuki Alto sem á að komast 22,7 kíómetra á bensínlítranum og blæs frá sér 103 grömmum af CO2 á hvern kíómetra. Hann segir í samtali við Motormagasinet að hann vilji með þátttöku sinni sýna að með því að stíga létt á bensíngjöfina sé hægt að komast enn lengra á hverjum eldsneytislítra en bílaframleiðendur gefa upp. En jafnframt dragi maður úr útblæstri skaðlegra efna með slíku ökulagi. Hann segist alls ekki reikna með því að sigra en vilji með því að taka þátt, vekja athygli almennings á öruggu og ábyrgu aksturslagi.
Suzuki Eco Rally 2009 hefst kl. 19.00 annað kvöld í Vordingborg. Þá verður ekin 150 km leið. Á laugardagsmorguninn hefst keppni að nýju. Þá verða eknir 230 km og endað í Vordingborg um fjögurleytið síðdegis.