Dauðaslys í Dakar rallinu
10.01.2006
Andy Caldecott ásamt eftirlifandi eiginkonu og barni.
Ástralski mótorhjólakeppandinn Andy Caldecott fórst í níunda áfanga Dakar rallsins í gærmorgun. Engin vitni voru að slysinu en Caldecott virtist hafa fallið á hjóli sínu eftir að hafa ekið 250 kílómetra leiðarinnar. Talið er að hann hafi látist samstundis. Tilkynnt var um slysið kl 11.21 að staðartíma og kom sjúkraþyrla á slysstaðinn 24 mínútum síðar og læknir staðfesti að Caldecott væri látinn.
Caldecott var að keppa í sínu þriðja Dakarralli. Hann var hættur keppni þegar KTM mótorhjólaliðið hafði samband við hann um síðustu jól og bað hann að taka sæti liðsmannsins Jodi Duran sem var slasaður. Þótt aðdragandi að þátttöku hans væri ekki lengri en þetta var Caldecott meðal þeirra fremstu og var í tíunda sæti þegar slysið gerðist.