Dauðaslysum fækkar verulega í Danmörku
20.12.2005
Undanfarna 12 mánuði hafa færri látið lífið eða slasast alvarlega í umferðarslysum í Danmmörku en nokkru sinni frá styrjaldarlokum vorið 1945. Á tímabilinu nóvember 2004-nóvember 2005 létust 336 í umferðarslysum miðað við 372 næstu 12 mánuði á undan. Það er nærri 10 prósenta fækkun á einu ári. Undanfarin fimm ár urðu dauðaslys 33 prósent færri en fimm árin þar á undan.
Slasaðir á fyrra tímabilinu urðu 7.501 en á því síðara 6.743. Frá þessu er sagt á fréttavef FDM sem er systurfélag FÍB í Danmörku.
Októbermánðuur skar sig þó úr því að þá urðu fleiri dauðaslys en í október á síðasta ári en sú slysaalda virtist ganga yfir því að í nóvember urðu 28 dauðaslys miðað við 43 í nóvember á síðasta ári
Umferðarráð Danmerkur setti sér það markmið árið 2000 að fækka látnum og alvarlega slösuðum í umferðarslysum um 40% fram til ársloka 2012 eða úr 500 látnum í 300. Slysatölurnar nú sýna því það að árangurinn sem náðst hefur er verulega betri en gert var ráð fyrir í þeim áætlunum. Til að áætlunin standist þarf dauðaslysum að fækka um eitt prósent á ári þau sjö ár sem eftir eru til ársloka 2012.
Menn þakka þennan góða árangur því að vegir hafa verið bættir verulega undanfarin ár. Bæði hefur hraðbrautanetið lengst og ýmsar endurbætur verið gerðar á vegum, umhverfi þeirra og gatnamótum. Þá hefur bílafloti landsmanna endurnýjast og öruggari bílar komið í stað eldri og ótraustari