Dauðaslysum stórfækkar í USA
Árið 2009 fórust 33.808 manns í umferðarslysum í Bandaríkjunum. Þótt þetta sýnist há tala á íslenskan mælikvarða þá má segja að hún sé lág miðað við fólksfjölda og aðrar aðstæður þar vestra. Dauðaslysum hefur farið fækkandi ár frá ári og urðu 10 prósent færri 2009 en árið á undan. Dauðaslys í umferð í Bandaríkjunum hafa ekki verið færri í landinu í 60 ár.
Roy LaHood samgönguráðherra Bandaríkjanna sagði á blaðamannafundi í gær, þar sem slysatölurnar voru kynntar að vissulega væri það gleðiefni hversu góðan árangur sú markvissa stefna undanfarinna ára að fækka umferðardauðaslysum hefði borið. En næstum 34 þúsund látnir væri allt allt of mikið og hvergi mætti slakað á klónni í þeirri viðleitni að útrýma umferðardauðanum.
Árið 1950 létust 33.186 manns í umferðarslysum í Bandaríkjunum. Það ár voru 50 milljón bílar í umferð og 62 milljónir Bandaríkjamanna höfðu ökuréttindi. Í dag eru hins vegar 250 milljón bílar í umferð og 210 milljón manns eru handhafar gilds ökuskírteinis. Árið 1950 urðu sex dauðaslys á hverjar 100 milljónir ekinna mílna. Í fyrra hafði þessi tala lækkað niður í 1,13 látna á hverjar 100 milljón eknar mílur.
Hverjar eru svo skýringarnar á þessari gríðarmiklu hlutfallslegu fækkun dauðaslysa? Jú, bílarnir eru miklu öruggari, vegirnir eru verulega betri, miklu fleiri nota nú öryggisbelti, sem reyndar ekki fyrirfundust í bílum árið 1950. Þá eru nú mun færri á ferð í umferðinni undir áhrifum áfengis en þá tíðkaðist. Í mörgum ríkjum Bandaríkjanna hefur sérstaklega verið barist gegn ölvunarakstri með þeim árangri að umferðarslysum þar sem áfengisneysla kemur við sögu, hefur fækkað, sumsstaðar um tugi prósenta.
Loks fækkaði mótorhjólaslysum í Bandaríkjunum um 16 prósent milli áranna 2008 og 2009 eftir að hafa farið stöðugt fjölgandi frá árinu 1997.