Dauðastríð Saab heldur áfram
Saab Automobile í Svíþjóð sótti í gær um greiðslustöðvun í þrjá mánuði. Tímann á að nota til að endurskipuleggja reksturinn og nota það fé sem Kínversku fyrirtækin Pang Da og Youngman hafa lofað að koma inn með, þegar og ef það lkoks skilar sér. Kínaféð á að nýta til að greiða útistandi launaskuldir og skuldir við undirframleiðendur, koma framleiðslunni í gang á ný. Að því loknu ætla menn að afla lausafjár til rekstrarins.
Engin bílaframleiðsla hefur átt sér stað hjá Saab síðan í byrjun apríl í vor. Peningar kínversku fyrirtækjanna tveggja sem lofað hafa samvinnu við Saab, hafa ekki skilað sér þar sem kínversk stjórnvöld hafa ekki veitt til þess nauðsynleg leyfi, að því sagt hefur verið.
Á blaðamannafundi hjá Saab í gær kom fram hjá Victori Muller forstjóra og aðaleiganda Saab að gjaldfallnar skammtímaskuldir fyrirtækisins eru meiri en haldið hefur verið hingað til, eða um 44 milljarðar ísl. kr. Margir lánadrottna hafa löngu misst þolinmæðina og hafa hótað að krefjast gjaldþrots. Segja má að greiðslustöðvunarbeiðnin sé vörn Saab gegn því, vegna þess að fyrirtækið verður ekki tekið til gjaldþrotaskipta meðan það er í greiðslustöðvun. Enn geta því liðið þrír mánuðir áður en örlög Saab ráðast. Það fer hins vegar eftir því hvort héraðsdómur Vänersborgarléns samþykkir greiðslustöðvunina eða ekki. Victor Muller sagðist á blaðamannafundinum í gær vera viss um að það myndi rétturinn gera.