Dekk sem endast lengur
Michelin kynnti í síðustu viku nýtt sumardekk á kappakstursbrautinni Vallelunga við Róm. Dekkið nefnist Primacy HP og var sagt ekki aðeins með betra veggrip í bleytu en önnur dekk, heldur líka 25-50% endingarbetra.
-Þetta þýðir að meðan bestu dekkin hingað til duga í 24 mánuði dugar Primacy HP í 30 mánuði. Miðað við meðaldekk þá má gera ráð fyrir því að Primacy HP dugi einu ári lengur undir bílnum, sagði talsmaður Michelin við kynninguna á Vallelunga.
Það er ekki neitt nýtt atriði í framleiðslunni sem eitt og sér eykur líftíma dekksins svo mjög, heldur margir þættir eins og uppbygging dekksins, efnisval og efnasamsetning, mynstur o.fl. segja talsmenn Michelin. Þeir segja að dekkið sé mjúkt, en því hætti samt ekki til að aflagast undir miklu álagi. Það sé ekki síst að þakka hugvitssamlegri efnasamsetningu í gúmmíinu.
En hluti skýringarinnar á betri endingu er fólginn í snertifleti dekksins við veginn. Þótt nýja dekkið sé jafn stórt um sig og breitt og eldri gerðir, er snertiflöturinn orðinn stærri og þyngdin dreifist nánast jafnt á hvern einasta fersentimetra snertiflatarins. Það þýðir að slitflöturinn slitnar nánast allur jafnt og það er meginlykillinn að betri endingu, segja þeir hjá Michelin.