Desmond Tutu heiðraður af FiA
Desmond Tutu fyrrverandi erkibiskup í S.Afríku tók í nýliðinni viku við heiðursverðlaunum FiA-samtaka bifreiðaeigendafélaga og bílaíþrótta fyrir störf að umferðaröryggismálum. Það var formaður FiA akademíunnar, Rosario Alessi, sem afhenti verðlaunin við hátíðlega athöfn í Höfðaborg í S. Afríku nýlega. Myndin sem fréttinni fylgir er af þeim.
Desmond Tutu erkibiskup hefur á langri ævi verið ódeigur baráttumaður fyrir lýð- og mannréttindum og jafnrétti og einn öflugasti forystumaður kaþólsku kirkjunnar í heiminum um áratugaskeið. Þótt hann hafi látið af opinberum störfum sem biskup og erkibiskup hefur hann síður en svo sest í helgan stein með hendur í skauti. Hann tekur m.a. virkan þátt í heimsátakinu Áratugur aðgerða gegn umferðarslysum sem nú er á sínu fyrsta ári og var hleypt af stokkunum að frumkvæði FiA í maí sl.
Umferðarslys er ein skæðasta og hraðast vaxandi heilsuvá nútímans, sérstaklega þó í þeim hlutum heimsins sem kallast þriðji heimurinn. Desmond Tutu er í hópi þeirra heimsleiðtoga sem fyrstir gengu til liðs við heimsátakið gegn umferðarslysavánni sem hann hefur skilgreint sem nýjustu heilbrigðisvána og eina alvarlegustu almannaógn sem steðjar að þeirri heimsálfu sem hefur verið hans starfsvettvangur fyrst og fremst – Afríku.
Desmond Tutu hefur áður hlotið fjölda viðurkenninga. Meðal þeirra má telja friðarverðlaun Nóbels og mannúðarverðlaun Alberts Schweitzers. Hann sagði m.a. við móttöku FiA-verðlaunanna að auk þeirra líkamlegu og andlegu þjáninga og sorgar sem umferðarslysin valda fórnarlömbunum sjálfum, ástvinum þeirra og aðstandendum þá væri fylgifiskur þeirra gríðarlegur kostnaður sem legðist þungt á á heilbrigðiskerfi þjóða og legði oft fjárhag og líf fjölskyldna í rúst. Afleiðingar þeirra legðust sérstaklega þungt á einstaklinga og samfélög í fátækari ríkjum heimsins og hindraði að þau geti orðið bjargálna.
Eftir að Desmond Tutu lét formlega af erkibiskupsdómi gerðist hann forystumaður og talsmaður góðgerðarsamtaka eldri borgara hvaðanæva úr heiminum, sem allir hafa gegnt ábyrgðarstöðum á heimsvísu og hafa verið og eru enn mjög áhrifamikið fólk. Í samtökunum eru m.a. fyrrverandi framkvæmdastjóri SÞ. og fyrrv. forseti Bandaríkjanna. Þau hafa látið til sín taka í fjölmörgu, m.a. í verkefninu Áratugur aðgerða gegn umferðarslysum.