Detroit bílasýningin opuð blaðamönnum í dag

The image “http://www.fib.is/myndir/Nissan-versa.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Nissan Versa.
Síðdegis í dag sem er árla morguns samkvæmt klukkunni í Detroit verður árleg stórsýning bandarísku bílgreinarinnar opnuð fyrir blaðamönnum og fólki í bílaiðnaðinum. Almenningur fær svo aðgang að sýningunni undir lok vikunnar.
New York Times greinir frá því í morgun að í rauninni sé sýningin tvær sýningar: Önnur sýnir sparneytna bíla og umhverfismilda, en hin aflmikil tryllitæki, stórvaxna jeppa og pallbíla á ameríska vísu. Blaðið segir að sá hluti sýningarinnar sanni að erfitt sé að losa sig við gamla kæki. Bílar af síðarnefnda taginu sýni að stórir eldsneytishákar séu ekki algerlega dottnir úr tísku enn.
Enn áhuginn á þeim hefur dofnað mikið segir blaðið og margir bílaframleiðendur veðji nú meir en áður á litla og eyðslugranna fjölhæfa bíla og tvinntækni í vélum og drifbúnaði.
En tryllitækin og pallbílarir eru semsagt ekki dauðir úr öllum æðum, enda hafa sérstaklega pallbílarnir verið ábatasamir bandarísku bílafyrirtækjunum um langan aldur og nokkrar nýjar gerðir slíkra bíla eru til sýnis í Detroit og sumar hverjar í umhverfismildari búningi tvinntækni og umhverfisvænna eldsneytis en bensíns og olíu. Þá  reiknar blaðið með því að bæði Chrysler og GM muni koma fram með svör sín við velgengni Fords með nýja Mustanginn og kynna nýja sportbíla í sama anda.
Stóru japönsku bílaverksmiðjurnar frumsýna bíla í B-stærðarflokknum sem til þessa hafa verið mjög fágætir í umferðinni í Bandaríkjunum. Honda kynnir nú litla fjölnotabílinn Honda Jazz undir nafninu Fit, Toyota kynnir nýja Yarisinn og Nissan kynnir Versa.
Af öðru sem nýnæmi er fyrir Bandaríkjamönnum  og sýnt er í Detroit má nefna Dodge Caliper sem leysir af hólmi hinn aldna Dodge Neon. Í honum er ný fjögurra strokka bensínvél frá Chrysler sem verður fyrsta heimsvél Chrysler (sú sama hvar sem er í heiminum) Vél þessi er sögð mjög sparneytin og við hana verður í honum nýja Caliper, stiglaus CVT sjálfskipting. Þá kynnir Hyundai í fyrsta sinn í Bandaríkjunum nýju kynslóðina af Santa Fe jepplingnum og Kia sýnir hugmyndabílinn Soul sem er einskonar framhald eða sportútgáfa af  Sportage jeppanum.