Dísilbílabanninu aflétt í Osló
Banninu við akstri dísilbíla um götur Oslóborgar sem hófst sl. þriðjudagsmorgun, hefur nú verið aflétt. Hið kyrra og kalda loft sem lá yfir borginni um síðustu helgi hefur bæði hlýnað og komist á hreyfingu fyrr en ætlað var. Nú er þar hægur andvari, það hlýnar hratt og er spáð er allt að 8 stiga hita í dag og næstu daga.
Samkvæmt umferðartalningum í fyrradag við fjölmargar vegatollstöðvar á Oslóarsvæðinu hafði dísilbannið þau áhrif að meðan á því stóð að umferð dísilbíla minnkaði um 30 prósent og umferð í heild minnkaði um 10 prósent. Bannið hafði þannig bein og talsverð áhrif á umferðarstrauminn. Erfiðara þykir hins vegar að meta áhrif bannsins á loftgæðin og telja margir að veðrið hafi meiru ráðið um það en bannið.
Loftgæði urðu langt í frá eins slæm og óttast hafði verið. Oslóborg er sem kunnugt er í fjarðarbotni umlukin fjöllum og að vetri eru langar froststillur algengar og þá ,,læsist“ mengunarský gjarnan yfir borginni langtímum saman. Það gerðist ekki nú því að veður breyttist. Því var dísilbannið blásið af strax í gærdag.
Dísilbannið sætti harðri gagngrýni margra, m.a. þingmanns sem minnti á að stjórnvöld hvöttu fólk fyrir örfáum árum fólk til þes að kaupa sér dísilbíla og veittu bæði ríki og sveitarstjórnir kaupendum þeirra ýmiskonar ívilnanir á þeirri forsendu að frá þeim bærist mun minna af koltvíildi (CO2) út í andrúmsloftið en frá bensínbílum. Nú væru þessi sömu yfirvöld að vega að hag þeirra sem áður fóru að ráðum þeirra.
En það er engu að síður staðreynd að dísilbílar að þeim allra nýjustu undanteknum, gefa frá sér miklu meira af Nox, sérstaklega þegar kalt er í veðri og bílunum er ekið stuttar vegalengdir þannig að mengunarvarnabúnaðurinn nær aldrei að verða að fullu virkur. En þeir dísilbílar sem uppfylla E6 mengunarstaðalinn og eru með AdBlue pústhreinsibúnaði gefa frá sér miklu minna af Nox-samböndum og eru að því leyti áþekkir eða jafnvel betri en bílar með bestu bensínvélar. AdBlue búnaður sem stundum kallast BlueTech virkar þannig að þvagefni er sprautað saman við útblásturinn áður en hann kemst út í andrúmsloftið. Búnaður þessi hindrar langstærstan hluta Nox og sótmengunar frá dísilvélum í bæði fólksbílum sem stórum vörubílum og rútum.