Dísilbílarnir framúr bensínbílum í Þýskalandi
07.11.2007
Fleiri nýir dísilbílar en bensínbílar seldust í októbermánuði í Þýskalandi. Þetta er í fyrsta sinn sem slíkt gerist en dísilbílarnir hafa jafnt og þétt verið að draga á bensínbílana og mjótt hefur verið á munum um nokkurn tíma og er enn. Sú bíltegund sem mest jók söluna er Suzuki (61,5%). Næst mest aukning varð hjá Lada - 38,4%. Land Rover er í þriðja sætinu með 22,9% aukningu.
Samtals seldust 281.845 bílar í Þýskalandi í októbermánuði. Það er 4,1% minni sala en í sama mánuði í fyrra. Skýringuna á því telja menn vera þá að um síðustu áramót hækkaði virðisaukaskattur í Þýskalandi úr 16% í 19%. Það sem af er þessu ári er samdráttur í bílasölu í landinu 7,6% miðað við sama tíma í fyrra.
Þær tegundir sem mest juku sinn hlut miðað við sama mánuð í fyrra voru auk Suzuki, Lada og Land Rover, BMW ( 14%), Audi (8,5%) og Mercedes (Benz, Smart, Maybach 0,7%).
Þeir sem tapað hafa mestri markaðshlutdeild eru Honda (-24%), Opel (-20,7%), Citroen (-15,3%), Peugeot (-14,5%), Toyota (-10,4%), Ford (-6,3 %) og Volkswagen (-5,7 %).
Volkswagen er ennþá söluhæsta tegundin í Þýskalandi með 20,5% markaðshlutdeild.