Dísilolía hækkar í verði
Í gær hækkaði dísilolíulítrinn hjá N1, Olís og Skeljungi um 3 krónur. Sjálfsafgreiðsluverð á dísilolíu fór í 244.70 krónur á lítra hjá öllum félögunum. ÓB hækkaði einnig um 3 krónur og þar fór lítrinn í 244.40 krónur. Atlantsolía hækkaði í morgun dísilolíuna um 2.30 krónur og sama gerði Orkan. Dísillítrinn kostar núna 243.70 krónur hjá Atlantsolíu og 243.60 hjá Orkunni. Rétt í þessu var ÓB að taka til baka hluta af hækkuninni og selur núna dísilolíuna á 243.70 krónur. Algengt verð fyrir bensínlítra er 229.90 krónur á lítra.
Um þessar mundir er töluverður munur á heimsmarkaðsverði bensíns samanborið við dísilolíu. Við lok markaða í gær var uppreiknað verð á bensínlítra um 81 króna en dísillítrinn kostaði um 102 krónur.
Þessi ríflega 20 króna munur á heimsmarkaðsverði bensíns og dísilolíu skilar sér ekki að fullu í útsöluverði hér á landi. Fastir skattar á hvern bensínlítra eru um 6.50 krónum hærri en á hvern dísillítra. Fastir skattar á hvern bensínlítra með virðisaukaskatti eru í dag rúmlega 113 krónur. Um 110 krónur renna í ríkissjóð af hverjum dísillítra. Um 5.35 króna virðisaukaskattur leggst ofan á 21 krónu hærra heimsmarkaðsverð á dísilolíu samanborið við bensínið.