Dómurinn hefur áhrif á rekstur bílastæða í landinu

Brimborg ehf, sem rekur bílaleigu, þarf ekki að greiða Rekstrarfélagi Hafnartorgs stöðugjöld leigutaka sinna í bílastæðahúsinu við Hafnartorg samkvæmt dómi Hæstaréttar. Dómurinn er athyglisverður fyrir margar sakir en nú geta bílaleigur gert leigutökum kleift að komast hjá greiðslu gjalda sem aðrir þurfi að greiða.Þetta er meðal þess sem kemur fram á visir.is og dv.is í umfjöllun um málið.

Hæstiréttur staðfesti þar með dóm Landsréttar um að Brimborg ehf. þurfi ekki að greiða Rekstrarfélagi Hafnartorgs rúmar fimmtíu þúsund krónur, auk vaxta frá 31. maí 2019, vegna afnota viðskiptavina bílaleigu Brimborgar á bílastæði við Hafnartorg. Brimborg var sýknað af kröfum Rekstrarfélagsins á öllum dómstigum.

Rekstrarfélagið höfðaði málið vegna 22 skipta um mitt árið 2019 sem viðskiptavinir bílaleigunnar keyrðu burt úr bílastæðahúsinu án þess að borga. Samanlagður kostnaður var rúmlega 52 þúsund krónur. Það er gjald samkvæmd gjaldskrá og 1.800 króna innheimtugjald.

Höfðu aðeins bílnúmerin undir höndum en ekki nöfn ökumannanna

Rekstrarfélag Hafnartorgs hafði aðeins bílnúmerin undir höndum en ekki nöfn ökumannanna. Nöfnin vildi Brimborg ekki gefa upp og bar fyrir sig trúnað. Vildi bílaleigan meina að henni bæri ekki að greiða rukkanirnar vegna skilmála sinna.

„Í grein 17 í samningsskilmálum stefnda kemur fram að leigutaki sé ábyrgur fyrir öllum stöðusektum, stöðugjöldum, sektum fyrir umferðarlagabrot, veggjöldum, þar á meðal gjöldum fyrir akstur í gegnum göng, eða öðrum sambærilegum sektum og gjöldum. Skuli leigutaki greiða öll gjöld og sektir ásamt umsýslugjaldi samkvæmt gjaldskrá eiganda,“ segir í dóminum.

Töldu dómarar að Brimborg hefði ekki skuldbundið sig til þess að greiða rukkanirnar þó að fyrirtækið hafi neitað að afhenda upplýsingar um ökumennina. Svæðið væri vel merkt og ökumennirnir hafi mátt vita að þeir væru sjálfir að stofna til viðskipta við bílastæðahúsið.

Sýn á dóminn

Nokkrir hafa komið fram og tjáð sig um niðurstöðu Hæstaréttar og benda á að nú þurfi að bregðast við dómnum til að geta innheimt gjöldin. Sumir sem láta skoðun sína í ljós um dóminn segja að nú sé búið að gera öll bílastæði í landinu gjaldfrjáls fyrir þá sem eru á bílaleigubílum. Samkvæmt dómi Hæstaréttar, þá þurfa bílaleigur ekki að standa skil á ógreiddum bílastæðagjöldum leigutaka bílaleigubíla. Þetta hlýtur að eiga við öll bílastæði, alls staðar á landinu. Ennfremur er bent á að í samningsskilmálum sínum er leigutökum kleift að komast hjá greiðslu gjalda sem aðrir þurfi að greiða. Bílaleigan megi afhenda upplýsingar um leigutaka sinn en hún muni nú einfaldlega hunsa rukkunina.

Í einni færslu um dóm Hæstaréttar kemur fram að ekki sé hægt að gera bílaleigur ábyrgar fyrir neinum útgjöldum þriðja aðila sem leigutakar skapa, þar á meðal bílastæðagjöldum, gangagjöldum og hraðasektum, jafnvel þó bílaleigurnar áskilji sér rétt til að rukka leigutakana eftir á ef slíkar kröfur berast þeim sem eigendum bílanna.