Dónárrallið 19.-21. júní
12.06.2008
Það bílaáhugafólk sem verður í sumarleyfi í Suður-Þýskalandi í næstu viku ætti að líta við í Ingolstadt, heimabæ Audi, þar sem Dónárrallið verður haldið og upphafsstaður og endastöð rallsins verður.
Audi er aðal styrktaraðili þessa ralls fornbíla og klassískra bíla og leggur til alls níu sögulega bíla til keppninnar úr safni sínu. Dónárrallið er einn stærsti viðburður sinnar tegundar í Evrópu. Um 200 bílar taka þátt í því að þessu sinni.
25 ár eru síðan Audi kom fram með fjórhjóladrifna bilinn Audi Sport quattro. Tveir slíkir af árgerð 1984 eru skráðir til keppni í Dónárrallinu. Aðrir Audi bílar í keppninni verða einn Audi 50 frá 1978, tveir Audi 100 Coupè S frá 1973, einn Auto Union 1000 Sp Roadster frá 1964, einn DKW 3=6 Cabriolet frá 1956 og loks einn Horch 930V og einn Horch 830 BL frá 1939.
Keppnisleiðin er alls rúmir 500 kílómetrar. Ekið verður um þekktar og fagrar ferðamannaleiðir. Fimmtudagsmorgun 19. júní verða bílarnir ræstir af stað. Ekin verður leið sem nefnist Donaumoos Prolog og liggur um stærsta votlendissvæði S. Þýskalands. Föstudaginn 20. júni verður ekið til Hallertau og á laugardeginum 21. júní verður ekið um þjóðgarðinn Altmühltal. Auk þess verða eknar ýmsar sérleiðir á föstudeginum og laugardeginum í nágrenni Ingolstadt. Af sögulegum stöðum sem leiðin liggur um má nefna hinn fagra miðbæ bæjarins Eichstätt og bæinn Neuburg við Dóná sem reistur var á Renaissance-tímabilinu. Nánari upplýsingar um áfanga og sérleiðir Dónárrallsins er að finna hér.