Drægi rafbíla áhyggjuefni
Opel í Danmörku hefur sent út spurningalista til 2.100 danskra Opeleigenda til að komast eftir áhuga þeirra á rafbílum. Lang flestir, eða níu af hverjum tíu svarenda lýsa áhyggjum sínum af því hve rafbílar eru skammdrægir og segja það stærsta þröskuldinn í vegi rafbílanna. Danir hafa nú skapað nýyrði fyrir þennan skrekk bílakaupenda og kalla hann Rækkeviddenervøsitet eða drægisótta.
Hið takmarkaða drægi rafbíla miðað við bíla með hefðbundnum brunahreyflum er þannig nánast undantekningarlaust það atriði sem bíleigendurnir benda á sem stærstu hindrunina gagnvart útbreiðslu rafbíla. 90 prósent svarenda sögðu að þeim óaði við því að verða hugsanlega strand einhversstaðar langt í burtu frá áfangastað með tóma rafgeyma. 88 prósent aðspurðra bentu líka á verðið sem allnokkra hindrun í vegi rafbílanna. Einungis eitt prósent svarenda kvaðst ekki hafa áhyggjur af því að verða rafmagnslaus á rafbíl.
En með þessari könnun telur Opel sig hafa fengið það staðfest að Opel Ampera sem kemur á markað í Þýskalandi á næsta ári sé sú gerð rafbíls sem flestir geti sætt sig við.
Opel Ampera er nefnilega rafbíll með rafhlöðum sem duga til 60 km aksturs. En þegar rafmagnið minnkar fer bensínknúin rafstöð í gang og framleiðir nógan straum til að geta haldið áfram för. 67 prósent svarenda í könnuninni umræddu kváðust aldrei aka lengra en 60 kílómetra í daglegri notkun heimilisbílsins og þeim hugnaðist það vel að geta ekið til og frá vinnu án nokkurs CO2 útblásturs yfirleitt. En þeim fannst heimilisbíllinn þurfa líka að duga til lengri aksturs í fríum og um helgar. Það getur Opel Ampera líka, því að þegar rafmagnið er búið eftir 60 km aksturs getur bensínrafstöðin við að framleiða straum og bíllinn heldur áfram, meðan bensín er á tanknum.
Fimmti hver Opeleigandi sem svaraði könnuninni gat hugsað sér að eignast rafbíl að því tilskyldu að verðið væri hið sama eða sambærilegt við verð núverandi heimilisbíls. Ef verðið verður 50 prósent hærra en á sambærilegum bensínbíl, þá voru einungis tvö prósent svarenda tilbúnir til að íhuga að kaupa rafbílinn.