Draga þarf úr kóbalti í rafbílarafhlöðum
Aukin rafbílavæðing samfara orkuskiptum í samgöngum á landi hefur aukið eftirspurn eftir hráefnum sem notuð eru til að framleiða liþíumjónarafhlöður. Liþíum hefur hækkað í verði um 600% á liðnu ári. Fyrir utan liþíum beinist athyglin séstaklega að kostnaði við hráefnin sem notuð eru í bakskautsframleiðslu (katóðu) rafhlaðna.
Kóbalt er lykilhráefni í katóðum endurhlaðanlegra liþíumrafhlaðna og ríflega fjórðungur kostnaðar við framleiðslu rafbílarafhlaðna. Um 40% af kóbaltframleiðslu heimsins er í dag notað í liþíumjónarafhlöður.
Heimsmarkaðsverð á kóbalti náði hæstu hæðum árið 2018 og fór þá yfir 40 Bandaríkjadali á pund (0.45359237 kg) af efninu. Verðið hélst í kringum 15 dollara á pund 2019 og 2020 en tók að hækka í fyrra og er núna í um 35 dollara á pund. Nikkel er næstdýrasta hráefnið en þar hafa verðsveiflur verið minni. Nikkel náði upp í 9 dollara á pund í fyrra en stendur í yfir 13 dollurum þegar þessi frétt er skrifuð.
Vegna hás hráefnisverðs og takmarkaðs framboðs á kóbalti eru framleiðendur rafhlaðna og vísindamenn um víða veröld að leita að valkostum til að draga úr eða útrýma þörfinni fyrir kóbalt í rafhlöðuframleiðslu. Áætlað er að hundruð milljóna rafknúinna ökutækja verði komin í umferð á vegum heimsins árið 2050.
Sívaxandi eftirspurn mun hafa veruleg áhrif á kóbaltforða heimsins á næstu árum. Það er mjög mikilvægt að framtíðar rafbílarafhlöður verði án kóbalts til að gera framleiðslu rafbíla sem mest sjálfbæra á næstu áratugum.