Dreginn verði lærdómur af atburðinum í Abu-Dhabi

Töluverðar umræður fóru af stað eftir sigur Hollendingsins Max Verstappen í síðustu keppni í Formulu 1 um liðna helgi. Mercedes-liðið og Lewis Hamilton voru mjög ósátt við hvernig mótstjórinn beitti reglum um öryggisbíl á síðustu hringjum kappaksturins. Ný beiting reglanna gerði Max Verstappen kleift að vinna heimsmeistaratitil ökuþóra í fyrsta sinn, þrátt fyrir að Hamilton hafi leitt kappaksturinn í Abu Dhabi frá fyrsta hring. Úrslitin þýddu að Verstappen fór með sigur af hólmi í heildarstigakeppninni og þar með Verstappen heimsmeistari í Formuli 1 í fyrsta sinn.

Opinberum kvörtunum Mercedes til alþjóðakappaksturssambandssin FIA, sem snúa að úrslitum lokakeppni tímabilsins í Formúlu 1 þar sem Max Verstappen tryggði sér heimsmeistaratitilinn á kostnað Lewis Hamilton, var strax vísað frá. Nú hefur Mercedes-liðið í Formúlu 1 ákveðið að það ætli ekki að áfrýja niðurstöðu dómara í Abu Dhabi-kappakstrinum um að ekkert athugavert hafi verið við það hvernig stjórn kappakstursins var háttað.

Mercedes fékk þrjá daga til að áfrýja þessari niðurstöðu dómara í Abu Dhabi en hefur tilkynnt að það ætli ekkert aðhafast frekar í málinu. Í yfirlýsingu frá Alþjóða akstursíþróttasambandinu, FIA, segir að sambandið ætli aftur á móti í naflaskoðun á regluverkinu þar sem margir telja að það sem gerðist um um síðustu helgi í kepnninni í Abu Dhabi hafa á vissan hátt skaðað ímynd Formulu 1.

Í yfirlýsingunni kemur m.a. fram að að meginábyrgð FIA á öllum viðburðum sé um fram allt að tryggja öryggi allra sem taka þátt og heilindi íþróttarinnar sem nýtur gífulegra vinsælda um allan heim. Aðstæður í kringum notkun öryggisbílsins í kjölfar atviks ökumannsins Nicholas Latifi, og tengd samskipti milli FIA keppnisstjórnarliðsins og Formúlu 1 liðanna, hafa valdið miklum misskilningi og viðbrögðum frá Formúlu 1 liðum, ökumönnum og aðdáendum. Þetta hefur svert ímynd keppninnar og lagði forseti FIA það til við stjórn keppninnar að nú verði sest niður með öllum viðeigandi aðilum. Dreginn verður lærdómur af atburðinum um síðustu helgi og brýnt verður að koma öllum upplýsingum og gildandi reglur með skýrum hætti til ökumanna, fjölmiðla og þeirra sem fylgjast með keppninni. Þetta liggi frammi við upphaf næsta tímabils.