Dregur úr umferðaraukningunni
Umferðin í nýliðnum júlí á Hringvegi jókst um 1,4 prósent. Þetta er minnsta aukning í umferðinni í þessum mánuði síðan árið 2012. Útlit er fyrir að aukning umferðar í ár í heild gæti numið 2,7 prósentum sem að sama skapi væri minnsta aukning síðan árið 2012. Samdráttur í umferð mælist á Austurlandi. Þetta kemur fram í tölum frá Vegagerðinni.
1,4% aukning varð í umferð yfir 16 lykil mælisnið Vegagerðarinnar á Hringvegi í nýliðnum júlí, borið saman við sama mánuð á síðasta ári. Þetta er minnsta aukning í júlí mánuði síðan árið 2012.
Af 5 skilgreindum svæðum Vegagerðarinnar, varð einungis aukning um tvö þeirra eða á Vesturlandi um 6,1% og yfir lykilteljara á og í grennd við höfuðborgarsvæðið eða um 3,3%. Um önnur svæði varð samdráttur og mestur varð hann á Austurlandi þar sem varð 6,9% samdráttur, sjá nánar meðfylgjandi töflu. Malbikunarframkvæmdir á Hellisheiði hafa leitt til þess að líklega hafi fleiri farið Þrengslin en um heiðina sjálfa og þá Hringveginn.
Umferð jókst mest um lykilteljara í Hvalfjarðargöngum eða um 9,5% en mestur samdráttur mældist um lykilteljara á Mývatnsheiði eða 10,9%.
Nú hefur umferðin aukist um 4,2% frá áramótum sem er nákvæmlega sama staða og var uppi á síðasta ári. Mest hefur umferð aukist um Vesturland og minnst um Austurland en þar mælist 3,1% samdráttur og er það eina svæðið þar sem umferð hefur dregist saman frá áramótum.
Frá ármótum hefur umferð aukist í öllum vikudögum og þá mest á sunnudögum eða um 8,5% en minnsta aukningin hefur orðið í umferð á þriðjudögum eða 2,5% aukning. Mest er ekið á föstudögum og minnst á þriðjudögum.
Nú stefnir í að umferðin geti aukist um 2,7%, hegði hún sér líkt og venja er til. Gangi þessi spá eftir þarf að leita þarf aftur til ársins 2012 til að finna minni aukningu í umferð milli ára á Hringveginum.