DS3 – gamalt gerðarheiti á nýjum bíl

Gerðarheitið DS hjá Citroën var síðast notað á einn frumlegasta og sérstæðasta bíl bílasögunnar. Nú hefur Citroën komið fram með nýjan bíl með þessu fornfræga gerðarheiti. Verst er bara að sá mikil frumleiki og nýhugsun sem var til staðar í gamla DS er eiginlega alls ekki til staðar í þessum nýja sem kallast DS3. En gullfallegur bíll er þetta engu að síður. Hann verður sýndur á bílasýningunni í Genf í byrjun næsta mánaðar. Nú er verið að kynna bílinn blaðamönnum í París og norrænir bílablaðamenn hafa reynsluekið honum og láta ágætlega af.

http://www.fib.is/myndir/CidroenDS2.jpg
Citroën DS 2010 - handa fallega fólkinu.

 Hinn nýi DS3 er þriggja dyra vel búinn og öflugur bíll sem ætlað er að höfða til unga, fallega og ríka fólksins á svipaðan hátt og nýi Mini, Alfa Romeo MiTo og Fiat 500. DS3 er byggður á sömu botnplötu og Citroën  C3 og nokkrir aðrir hlutar eru sameiginlegir, en þar með er það upptalið. DS3 er að öðru leyti sérstök gerð og sá fyrsti nýrra bílgerða hjá Citroën sem höfða eiga til fjársterkari hópa fólks en hinar almennu gerðir, sem og fólks sem vill skara fram úr nágrönnum sínum með því að eiga fínni eða aflmeiri bíla en þeir.

http://www.fib.is/myndir/Citroen-ds1955.jpg
Citroën DS 1955. Einstaklega frumlegur.

Vélin í þessum nýja bíl er ávöxtur samvinnu PSA (Citroën-Peugeot) og BMW. Þetta er túrbínuvél, 156 hestafla og með vinnslu upp á 240 Newtonmetra sem kemur að fullu inn við aðeins 1400 snúninga. Við hana er 6 gíra handskipting þannig að bíllinn er afar sveigjanlegur og sportlegur í akstri. Þetta verður aflmesta vélin sem fáanleg verður í þessum nýja bíl og sú eina sem blaðamenn hafa fengið að reyna í bílnum á kynningunni í París. Síðar verða fáanlegar 95 og 120 ha. bensínvélar og 110 ha. dísilvél.

Helstu keppinautar: Mini, Mini Clubman, Alfa MiTo, Fiat 500

 
   
   
   
   
   
   
   
   
   
   
   
Citroën DS
Helstu kennitölur
Vél:   4-str. línuvél með turbo, 1598 ccm
Afl: 115 kW (156 hö) 240 nM /1400-4000 sn. mín.
Stærðarmál: 395/172/146 sm (L/B/H)
Lengd m. hjóla: 246,4 sm
Eigin þyngd:
1597 lítrar
Farangursrými: 285 lítrar
Viðbr. 0-100 km/klst. 7,3 sek.
Hámarkshraði: 214 km/klst.
Meðaleyðsla: 6,7 l/100 km
CO2 útblástur:
155 g/km
Verð: Óvíst, líklega 4,2-6 millj. kr.