Dýrasti bensínlítrinn hjá N1 er 47 krónum dýrari en sá ódýrasti hjá Costco
Verð á olíueldsneyti hefur hækkað nokkuð hér á landi frá síðustu áramótum. Kostnaður á hvern lítra á heimsmarkaði hefur verið að rísa og íslenska krónan hefur veikst gagnvart bandaríkjadal á tímabilinu.
Bensín hefur hækkað um 10 krónur á lítra hjá N1 (algengasta verð) en hækkunin hefur verið minnst á ,,ódýru” stöðvum Orkunnar og ÓB á höfuðborgarsvæðinu og Akureyri eða 3,90 krónur á lítra. Hjá Costco hefur bensínið hækkað um 6 krónum frá áramótum á hvern lítra.
Athyglisvert er að sjá hversu mikill verðmunur er á dýrasta og ódýrasta bensíndropanum. Algengasta útsöluverðið hjá N1 er 236,90 kónur á lítra en sami lítri kostar 189,90 krónur hjá Costco í Garðabæ sem gerir er 47 krónur á lítra. Verðmunurinn á dýrasta og ódýrasta bensínlítranum hjá N1 er 40,90 krónur. N1 býður býður bensínlítrann á 196 krónur á þrem bensínstöðvum á höfuðborgarsvæðinu og einni stöð á Akureyri. Ódýrasta bensínið hjá Orkunni kostar 193,30 krónur en dýrasti dropinn hjá sama félagi kostar 234,50 krónur.
Það er erfitt að réttlæta yfir 40 króna verðmun hjá sama söluaðila líkt og hjá N1 en það sama á við um Orkuna og ÓB. Innkoma Costco á íslenska olíumarkaðinn hefur haft mikil áhrif á verðmyndun og samkeppni á markaðnum. Í fyrstu gerðu íslensku olíufélögin frekar lítið til að mæta samkeppninni en um ári eftir innkomu Costco lækkaði Atlantsolía verð á einni stöð í Hafnarfirði til að mæta samkeppninni frá Costco.
Hin félögin héldu enn að sér höndum eða þar til að Atlantsolía lækkaði verð á stöðinni við Sprengisand í Reykjavík og í kjölfar þess fóru öll félögin að bjóða upp á verð í samkeppni við Costco og Atlantsolíu á tveimur eða fleiri besnínstöðvum á höfuðborgarsvæðinu. Í fyrra bætti Atlantsolía einni stöð á Akureyri við með verð í anda samkeppninnar við Costco og á sama sólarhring voru öll gömlu olíufélögin farin að bjóða upp á ódýrara verð á Akureyri.