Bensíndælum í þéttbýli fækkar á næstu árum

Bensíndælum í Reykjavík verður fækkað um helming til ársins 2030 og árið 2040 verða þær að mestu horfnar, gangi loftslagsáætlun borgarinnar eftir. Olíufyrirtækin hafa breytt áherslum í rekstri, meðal annars til að búa sig undir orkuskiptin. Umfjöllun um þetta málefni kemur fram á vefsíðu ruv.is.

Í umfjölluninni er þeirri spurningu varpað fram hvað verður um allar bensínstöðvarnar ef þessar spár ganga eftir? Olíufyrirtækin eru vel meðvituð um þá stefnu Reykjavíkurborgar að fækka bensínstöðvum.

Jón Ólafur Halldórsson, forstjóri Olís, segir að bensínstöðvarnar séu oft vel staðsettar og að markmið borgarinnar sé að nýta hluta þeirra lóða til að þétta byggð.

„Það er ljóst að bensínstöðvum á eftir að fækka með tímanum og hlutverk þeirra breytist að einhverju leyti. Sömu þróun má líka sjá í nágrannasveitarfélögum borgarinnar. Það verður að þjóna fólkinu sem þarf þennan orkugjafa næstu tvo áratugina, hið minnsta.“ Jón Ólafur segir ljóst að mikill meirihluti rafbíla verði hlaðinn við heimahús. Bensínstöðvum í þéttbýli eigi því eftir að fækka. Hann telur að þær eigi samt sem áður eftir að gegna mikilvægu hlutverki. 

Þá kemur fram að rafbílar eru helmingur nýskráðra bíla í Noregi. Orkuveita Reykjavíkur spáir því að árið 2030 verði hlutfallið hér á landi svipað og þar. Mikil áhersla er lögð á orkuskipti í samgöngum í loftslagsáætlun ríkisstjórnarinnar og er stefnt að því að nýskráning bíla sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti verði bönnuð árið 2030, með nokkrum undantekningum þó.

Nánari umfjöllun um málið má nálgast hér.