Eigendaskipti á Dekkjahöllinni
Eignarhaldsfélagið Vekra, sem meðal annars rekur bílaumboðið Öskju, hefur gert samning um kaup á öllu hlutafé í fyrirtækinu Dekkjahöllinni. Eru kaupin þó háð samþykki Samkeppniseftirlitsins, að því er kemur fram í tilkynningu.
Dekkjahöllin hefur verið rekin í rúma fjóra áratugi og er með höfuðstöðvar á Akureyri. Félagið flytur inn hjólbarða frá vörumerkjum eins og Yokohama, Falken, Sonar og Triangle. Rekur fyrirtækið starfsstöðvar á Akureyri, Reykjavík og Egilsstöðum.
Eignarhaldsfélagið Vekra rekur sem fyrr segir bílaumboðið Öskju, sem annast innflutning og sölu á bifreiðum frá Mercedes-Benz, Kia, Honda og Smart. Eins rekur eignarhaldsfélagið bílaleigu og hefur fyrirtæki utan um Mercedes-Benz vöru- og hópferðarbíla. Ársvelta fyrirtækisins var 25 milljarðar á síðasta ári.
„Hjólbarðaþjónusta er órjúfanlegur hluti af bílaviðskiptum og þjónustu og enn frekar til framtíðar þar sem rafbílar eru að taka yfir sem ráðandi orkugjafi. Dekkjahöllin á sér góða sögu um þjónustu og er landsbyggðarfélag sem við kunnum vel að meta,“ er haft eftir Jóni Trausta Ólafssyni, forstjóra Vekru og framkvæmdastjóra Öskju, í tilkynningu.
„Við horfum því björtum augum til framtíðar og erum þakklát því trausti sem okkur er falið að taka við eignarhaldi félagsins.“