Einfaldur og ódýr
Miklir bílamenn, bæði hér á landi og í grannlöndunum tala stundum um að bílar séu orðnir allt of flóknir. Í þeim séu alls konar búnaður og tækni sem eigi til að bila og þegar það gerist, verði góð ráð mjög flókin og dýr. –Hvar eru nú allir einföldu bílarnir, Fólksvagnarnir, Lödurnar, Trabantarnir, Ópelarnir, Tánusarnir og meira að segja Volvóarnir. Þessir bílar voru vissulega misdýrir en allir einfaldir og auðveldir í viðhaldi?
En hver veit nema landið sé að rísa eða sé þegar risið? Volkswagen hefur komið fram með sinn Up!, Kóreumenn og Japanir með ýmsa ekki ósvipaða og nú síðast en ekki síst Renault með Dacia bíla frá Rúmeníu.
Dacia Sandero Stepway. |
Renault í Frakklandi á bílaverksmiðjuna Dacia í Rúmeníu sem fyrst og fremst endurnýtir eldri tækni frá Renault (og Nissan) og markvisst framleiðir einfalda og ódýra bíla undir tegundarheitinu Dacia. Dacia bílarnir voru framanaf hugsaðir fyrir efnaminni svæði Evrópu en nú fer eftirspurn vaxandi á efnaðri svæðunum eftir bílunum. Þessa dagana er að hefjast sala á smábílnum Dacia Sandero í Svíþjóð og Danmörku og sala er hafin á Íslandi á jepplingnum Dacia Duster.
Sá ódýrasti í Svíþjóð
Grunngerð Dacia Sandero er ódýrasti nýi bíllinn sem nú fæst í Svíþjóð. Hún kostar þar 78.900 sænskar krónur eða innan við 1,7 millj. ísl. kr. ESC skrensvörn er staðalbúnaður í öllum gerðum Sandero. Að stærð og byggingarlagi er Sandero líkur hinum nýja Renault Clio, þó lítilsháttar stærri. Sandero er fremur hábyggður og hátt undir hann þannig að hann er ekki langt frá því að geta talist jepplingur. Hér á Íslandi gæti þessi bíll kostað frá innan við tvær milljónir.
Í Dacia Sandero er um þrjár vélargerðir að velja í milli. Sú sem ef til vill er athyglisverðust er nýjasta bensínvélin sem hönnuð var fyrir Renault Clio. Hún er þriggja strokka, 0,9 l að rúmtaki með túrbínu. Aflið er 90 hö (66 kW) við 5250 sn./mín. Gírkassinn er fimm gíra handskiptur og viðbragðið 0-100 er 11,1 sek. Eyðslan er 5,2 lítrar á hundraðið í blönduðum akstri og meðal CO2 útblástur er 120 g pr. km. Hámarkshraði er 175 km/klst.
Önnur eldri (og ódýrari) bensínvél sem er 1,2 l fæst einnig. Hún er 75 hö. og eyðir meiru en hin, eða um 6 lítrum á hundraðið. Í þriðja lagi er svo dísilvél. Hún er 1,5 l að rúmtaki, 90 hö, eyðir 3,8 lítrum á hundraðið og gefur frá sér 99 g af CO2 á kílómetrann.
Bílablaðamaður Motormagasinet í Svíþjóð hefur reynsluekið Dacia Sandero og lætur ágætlega af honum. Hann segir merkilegt að það skuli vera hægt að bjóða þetta rúmgóðan, vel hannaðan, fallegan og notadrjúgan bíl, með nýjustu gerðum sparneytinna véla frá Renault á svo lágu verði og meira að segja mjög góð ryðvörn innifalin í verðinu. Verðið sé verulega lægra en á bílum eins og Suzuki Alto, Hyundai i10 og Peuegeot 107 sem allir séu minni bílar en kosti allir frá tveimur milljónum ísl. kr.
En hver er galdurinn hjá Dacia?
Hann er sá að allt hefur verið gert til að hafa þá hluti sem bíllinn er samsettur úr sem fæsta. Það hefur tekist svo vel að Sandero er samsettur úr einungis 1.800 hlutum. Til samanburðar þá eru bæði Renault Clio og Ford Fiesta, sem eru svipaðir að stærð, samsettir úr 2.800 hlutum. Þessu til viðbótar þá eru notaðir í Sandero gamlir hlutir og einingar frá Renault eftir því sem mögulegt er, þannig að ekki þarf að eyða fé og fyrirhöfn í að búa til ný mót og stansa sem móta efnið í bílinn. Þannig er undirvagn burðarvirki og flestir hlutar yfirbyggingarinnar nokkurnveginn þeir sömu og voru í 2. kynslóð Renault Clio. (Nýjasta kynslóð Clio er sú fjórða í röðinni).
Þetta þýðir auðvitað að Sandero stenst nýjustu kynslóð Clio bílanna ekki snúning hvað varðar öryggi. Nýi Clio er fimm stjörnu bíll hjá EuroNCAP en Sanderu einungis þriggja stjörnu. Bæði er ýmis öryggisbúnaður eins og loftpúðar af eldri gerð. Þá eru krumpusvæði að framan og aftan svipuð og voru í Clio af annarri og þriðju kynslóð. En verulegu máli skiptir þó að ESC skrensvörn er staðalbúnaður. Þá hafa kröfur til bíla verið hertar undanfarin ár hjá EuroNCAP og segja má að þriggja störnu bíll nú sé fyllilega á við fimm stjörnu bíl fyrir 6-8 árum.
Þegar sest er inn í Dacia Sandero sést strax að það er ekkert verið að bruðla í innréttingum og innri búnaði. Allt er haft eins einfalt og mögulegt er, eins og t.d. miðstöð og loftræsting og innréttingar allar. Hæð aðalljósgeislanna er ekki stillt með rafmótor eins og gjarnan tíðkast, heldur með handvirkum búnaði og stýrið er einungis stillanlegt á hæðina. En stýrið er ekki lengur án hjálparátaks eins og í gamla Dacia Logan. Þá hefur hljóðeinangrun stórlega batnað frá Dacia Logan bílunum sem voru mjög háværir í akstri. Ennfremur fæst nú bæði skriðstillir og GSP leiðsögukerfi sem aukabúnaður.
Sandero Stepway
Sandero Stepway er mjög verkleg og dálítið jeppaleg útfærsla af Sandero. Stepway er fjórum sentimetrum hærri á hjólunum, með hlífðarplötur undir vél og gírkassa og með verklegri stuðurum og plasthlífum á hliðunum. Allt þetta gerir bílinn talsvert traustlegri og ábúðarmeiri á að líta. Staðalvélin í Stepway er hin glænýja þriggja strokka vél sem fyrr er nefnd. Allt þetta hækkar grunnverðið nokkuð og kostar Stepway í Svíþjóð frá 112.900 SEK eða innan við 2,4 millj. ísl. kr. Það gæti bent til þess að hér á landi myndi hann kosta undir þremur milljónum, sem hlýtur að teljast ágætt fyrir þó þetta mikinn bíl.
Í akstri er Sandero mjúkur og þægilegur að sögn blaðamanns Motormagasinet. Stýrið er þó í ónákvæmara lagi og gírskiptingin sömuleiðis að hans mati. En bíllinn er mjög ódýr miðað við sambærilega bíla. Hann telur þó að engin ástæða sé til að ergja sig sérstaklega yfir því, vegna þess hve mikið þó fæst fyrir peninginn. Þá sé trúlega alveg óhætt að treysta því að bíll sem samsettur sé úr þrautreyndum Renaulthlutum eigi eftir að duga vel.
Helstu mál og vog: