Einkaframkvæmdin sem var(ð) ríkisframkvæmd
FÍB gagnrýndi á sínum tíma aðdraganda að Vaðlaheiðargöngunum og fékk bágt fyrir það hjá norðlenskum þingmönnum sem sökuðu m.a. félagið og framkvæmdastjóra þess um að leggja fæð á landsbyggðarfólk og sérstaklega þó Akureyringa.
Það sem FÍB gagnrýndi einkum var sú staðreynd að framkvæmdin var ekki á þágildandi samgönguáætlun, heldur var hún tekin með handafli þingmanna og áhrifamanna í norðausturkjördææmi og sett fremst í framkvæmdaröð áætlunarinnar. Til að sætta almenning og fjölmiðla við þetta voru sett upp leiktjöld sem áttu að sýna gríðarlegan ávinning framkvæmdarinnar fyrir kjördæmið og landið allt. Þung áhersla var einnig lögð á það að þetta væri einkaframkvæmd sem myndi að öllu leyti standa undir sér með veggjöldum. Göngin myndu borga sig upp á skömmum tíma og ríkissjóður og skattborgarar aldrei þurfa að leggja krónu í púkkið.
FÍB benti á hversu rökin fyrir þessu væru haldlítil m.a. vegna þess að stofnkostnaður ganganna væri allt of lágt áætlaður, þjóðhagsleg arðsemi væri of lítil, allar kostnaðaráætlanir væru allt of bjartsýnar, greiðsluvilji vegfarenda ofmetinn og tekjur af veggjöldum ofáætlaðar sem og væntanleg umferð um göngin.
Nú er orðið ljóst að kostnaður við gerð ganganna fer langt fram úr uphaflegum áætlunum. Nú þegar búið að bora um 84 prósent af heildarlengd þeirra er talið að þau muni fullbúin kosta minnst 13-14 milljarða -ekki 8,7 milljarða samkv upphaflegu áætluninni. (án VSK).
Eigendur Vaðlaheiðarganga nokkurnveginn til helminga eru ríkisstofnunin Vegagerðin og Greið leið Eigendur Greiðrar leiðar eru sveitarfélögin í Norðausturkjördæmi auk nokkurra fyrirtækja í landshlutanum, þannig að Vaðlaheiðargöng hf eru að lang stærstum hluta í opinberri eigu. Framkvæmdafé ganganna hefur verið lánsfé sem ríkissjóður ábyrgist og nú vantar meira til að hægt sé að klára verkið.
Hin sagða einkaframkvæmd var það aldrei, heldur var og er ríkisframkvæmd í dulargervi einkaframkvæmdar. Það staðfestir stjórn Vaðlaheiðarfélagsins nú með því að leita til ríkissjóðs um aukalán upp á um 2,5 milljarða króna til að geta klárað verkið.
Fjallað er um Vaðlaheiðargöngin í fréttaskýringu í Fréttablaðinu í dag 28. sept, og í leiðara þess einnig. Hér á eftir eru nokkrar tilvitnanir í leiðarann:
,,Göngin undir Vaðlaheiði eru vafalítið mikil samgöngubót fyrir þá sem búa í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum. Víkurskarð getur verið hvimleiður farartálmi að vetri og því má vel skilja ákafa heimamanna á svæðinu að bora göng undir heiðina. Alþingi samþykkir vegaáætlun og gangagerð er forgangsraðað í henni. Önnur göng voru framar í þeirri forgangsröð en hugmyndaríkum mönnum með stuðningi þingmanna kjördæmisins datt í huga að setja göngin í einkaframkvæmd.”
...,, Nú er í aðdraganda kosninga biðlað til ríkisins að leggja til þá fjármuni sem á vantar. Þegar ríkisábyrgð var samþykkt vegna ganganna var látið að því liggja að slík ábyrgð leiddi ekki af sér neinn raunverulegan kostnað. Mótbárur og gild rök fyrir því að skattpeningar væru raunverulega að fara í göngin þóttu fremur léttvæg Niðurstaðan af þessu brölti öllu er að allar líkur eru á því að kostnaður falli á ríkið vegna þeirra. Ábyrgð ríkisins er raunverulegt framlag til ganganna og með því að fara þá leið sem farin var tókst áhugamönnum um þessi göng að smygla þeim fram fyrir á vegaáætlun.
...,,Nú stefnir í að göng sem áttu að kosta 8,7 milljarða munu kosta milli 13 og 14 milljarða. Hugsanlegt er að tekjur vegna aukins ferðamannastraums lagi stöðuna eitthvað. Það er þó ekki víst, enda ekki tiltökumál að keyra Víkurskarð að sumri. Eftir stendur að einkaframkvæmdin er orðin ríkisframkvæmd og reikningurinn sendur á skattborgara og farið var fram hjá eðlilegri forgangsröðun við ákvörðun um gangagerðina. Vaðlaheiðargöng ættu að vera víti til varnaðar, næst þegar stjórnmálamenn vilja veita slíka ábyrgð og reyna að halda því fram að hún kosti ekki neitt.”