Einn fimm stjörnu og annar fjögurra
Fyrr í dag birti EuroNCAP niðurstöður árekstrarprófs númer tvö á þessu ári. Einungis tveir bílar voru prófaðir að þessu sinni, eins og í því fyrra. Bílarnir sem nú hafa verið prófaðir eru nýjasta kynslóð smábílsins Hyundai i10 sem hlaut fjórar stjörnur af fimm, og Mercedes Benz C-línan sem hlaut fimm stjörnur.
Þær kröfur sem bílar þurfa að uppfylla til að hljóta fimm stjörnur hafa verið hertar talsvert frá og með þessu ári. Það virðist þýða það að smábílarnir eiga nú erfiðara með að
ná fimmtu stjörnunni en var áður. Hyundai i10 hefði þannig vafalítið náð fimmtu stjörnunni samkvæmt reglum EuroNCAP eins og þær voru á síðasta ári, enda er bíllinn að flestu leyti vandaður og vel heppnaður. Og miðað við það má allt eins búast við því að þeir bílar af svipaðri stærð sem prófaðir verða síðar á árinu, eigi ekki margir eftir að ná fimmtu stjörnunni í hús. En þeir eru svo sem ekkert varasamari þótt stjörnurnar séu einni færri en í fyrra.
Mercedes-Benz C-línan nær fimmtu stjörnunni örugglega í hús enda er staðal-öryggisbúnaður bílsins bæði mikill og víðtækur. En í ofanálag fæst í bílinn ýmis viðbótar öryggisbúnaður sem getur gert bílinn enn öruggari bæði fyrir þá sem í honum ferðast, sem og þá vegfarendur sem eru í kring um hann eru.