Eins lítra bíll frá VW afhjúpaður
Margir muna eflaust enn eftir því þegar Ferdinand Piëch þáverandi stórnarformaður Volkswagen ók frá Wolfsburg, höfuðborg Volkswagen, til Hamborgar á „eins lítra bíl“ til síns síðasta stjórnarfundar í apríl árið 2002. Vegalengdin sem Piëch ók var um 220 km og eyðslan á eins strokks dísilvélinni var ótrúlega lítil eða einungis 0,89 l á hundraðið.
Vitað var að eins lítra bíllinn var mikið áhugamál gamla stórnarformannsins og þar sem hann var að láta af stjórnarformennsku, þótti tvísýnt um framhaldið. Enda fór það svo að frekari fyrirætlanir voru lagðar á ís.
En nú eru runnir upp aðrir tímar og sparneytni og eins lítil mengun og mögulegt er hefur komist í tísku á ný og Volkswagen hefur dustað rykið af eins lítra bílnum. Þegar dyr Frankfurtbílasýningarinnar verða opnaðar fyrir blaðamönnum í fyrramálið, munu þeir fá að sjá nýjan eins lítra bíl Volkswagen. Þetta er frumgerð tveggja manna farartækis sem knúið er dísilvél sem sögð er eyða 1,49 l á hundraðið og gefa frá sér einungis 39 grömm af CO2 á hundraðið.
Myndir hafa birst af þessu nýja farartæki og birst í þýskum bílablöðum ásamt getgátum um að fjöldaframleiðsla sé á næsta leiti og hefjist jafnvel fyrr en ætla mætti, miðað við það hversu leynt smíði og reynsluakstur frumgerða þessa farartækis hafa farið.
Ekki hafa miklar upplýsingar lekið út um tæknihliðar bílsins aðrar en þær að dísilvélin er tveggja strokka og 36 hestafla og gírkassinn er sjö gíra af DSG gerð (sjálfskiptur). Frekari upplýsinga er að vænta á morgun frá blaðamönnum á sýningunni.