Eins lítra lítra bíllinn VW XL1

Volkswagen hefur opinberað myndir af eins lítra bílnum sem er til sýnis á Qatar-bílasýningunni í höfuðborginni Doha sem opnuð var almenningi  í morgun. VW hefur áður sýnt tvær frumgerðir eins lítra bílsins. Sú fyrsta var sú sem þáverandi stjórnarformaður Ferdinant Piëch ók frá Wolfsburg til Hamborgar árið 2009. Sú næsta var svo sýnd á Frankfurt bílasýningunni sama ár og nú kemur þriðja útgáfan og sú sem líklega fer í fjöldaframleiðslu.

http://www.fib.is/myndir/VW_Formula_XL1_2.jpg
http://www.fib.is/myndir/VW_Formula_XL1_3.jpg
XL1 er dísil/rafmagnstvinnbíll
sem eyðir aðeins 1 l á hundraðið.

Þessi nýjasta er sú hefðbundnasta í útliti til þessa. Bíllinn er enn tveggja manna en nú eru sætin hlið við hlið en ekki annað aftan við hitt. Þá er farartækið eftir myndunum að dæma mun „bíllegra“ í útliti en eldri útgáfurnar tvær voru. Og óneitanlega er það góð tilhugsun að til sé að verða farartæki til að skutlast á í og úr vinnu og út í búð, sem eyðir einungis einum lítra af dísilolíu á hundraðið að meðaltali án þess að sérstakt sparaksturslag sé viðhaft.

Þessi nýi Fólksvagn hefur verið og er eins og við höfum áður greint frá,mikið hjartansbarn Ferdinants Piëch bílaverkfræðings, stjórnarmanns í Volkswagen og dóttursonar höfundar VW bjöllunnar gömlu og fyrstu Porsche sportbílanna. Hann er nú aftur kominn að stjórnartaumunum í Volkswagen og ætlar sér að koma eins lítra bílnum í framleiðslu innan fárra ára.

Frumgerðin sem nú er sýnd í Doha er líklegast sú útgáfa að mestu leyti sem sett verður í fjöldaframleiðslu. Hún nefnist XL1 og er tvinnbíll með 800 rúmsm tveggja strokka, 48 hestafla dísilvél og 27 hestafla rafmótor. Líþíumrafhlöður bílsins duga fullhlaðnar til 35 km aksturs ef ekið er á rafmagninu einu. Í venjulegum akstri vinna þó báðar vélar saman og er rafmótorinn fyrst og fremst til að spara sem mest eldsneytið. Segja má að það hafi tekist bærilega því samkvæmt staðlaðri Evrópumælingu er eyðslan í blönduðum akstri 0,9 l á hundraðið. Olíutankur bílsins tekur einungis 10 lítra og á honum kemst bíllinn því ca. 550 kílómetra og CO2 útblásturinn er með minnsta móti eða 24 grömm á kílómetrann.

VW XL1 er þannig að undirvagn og yfirbygging er byggt sem ein heild úr koltrefjaefnum ekki ósvipað og Formúlu 1 bílar eru byggðir. Lengdin er 3,888 m, breiddin er 1,665 m og hæðin einungis 1,156 m. Lengd milli hjóla er 2,224 m. Heildarþyngd bílsins er 795 kíló. Þar af vega dísilvélin, rafmótorinn og gírkassinn samtals 227 kíló, Hjól, hjóla- hemla-, og fjaðrabúnaður vega 153 kíló. Geymar og rafbúnaður vega 105 kíló, sæti og innrétting vega 80 kíló. Þá eru eftir 230 kíló sem eru þyngd skeljarinnar (undirvagns og yfirbyggingar), glerrúða, ljósa, spegla, skrautlista og slíks.

Þótt XL1 sé mun breiðari en fyrri frumgerðirnar tvær er loftmótstaðan enn lítil eða Cd 0,186 sem táknar það að bíllinn smýgur 2,5 sinnum léttar gegn um loftið en Volkswagen Golf sem hefur loftmótstöðustuðulinn 0,312 sem þykir reyndar ágætt.