Eitraðir bílar

Bandarísk stofnun sem nefnist Ecology Center hefur rannsakað 200 bíla til að komast að því hversu varasamt það getur verið fyrir heilsuna að dvelja í þeim langdvölum.

Þau efni sem notuð eru í innréttingar bíla eins og mælaborð, sæti, stýri, armpúða og jafnvel sætaáklæði innihalda eiturefni í mismiklum mæli sem dreifast um þröngt loftrými bílsins. Við þekkjum flest lyktina sem er inni í bílum, sérstaklega meðan þeir eru nýir og nýlegir. Það er þessi lykt sem inniheldur eiturefnin.  Mörg þeirra eru mjög heilsuspillandi og geta valdið fólki bæði tímabundnu sem og varanelgu heilsutjóni. Hægt er að skoða þennan 200 bíla lista á beimasíðu Ecology Center.

„Rannsóknin sýnir að í innréttingum bíla eru hundruð eitraðra efna og efnasambanda og lokað rými bílsins virkar eins og efnahvarfi og hundruð skaðlegra efna og efnasambanda berast stöðugt út í þröngt loftrýmið. Bílar eru þannig verstu eiturholur sem fyrirfinnast í daglegu lífi fólks,“ segir Jeff Gearhart, rannsóknastjóri Ecology Center.

En það eru ekki allir nýir bílar jafnslæmir. Bæði Ford og Volvo hafa tekið upp hjá sjálfum sér að umhverfismerkja tilteknar gerðir bíla og hafa dregið markvisst úr notkun eiturefna í innréttingar bíla sinna. Að meðaltali hefur Ford tekist vel upp í þessu. Eiturefni í Ford bílum eru að meðaltali 30 prósent færri í árgerð 2012 en var í bílum af árgerð 2009.

Af þeim bílum sem voru rannsakaðir er Honda Civic í nokkrum sérflokki.  Í innréttingum bílsins fyrirfinnast nánast engir þungmálmar né heldur sérstakt eldvarnarefni sem inniheldur frumefnið bróm.

Ástandið reyndist heldur verra í Mitsubishi Outlander/ASX og Chrysler 200. Í þeim fannst b.a. bróm í mælaborði, leður á stýri og miðjustokki reyndist innihalda króm og talsvert af blýi fannst í sætaáklæði.

En greinilegt er að bilaframleiðendur eru byrjaðir að forðast eiturefnin. Þannig reyndust 17 prósent bílanna sem athugaðir voru, algerlega lausir við PVC plast sem var í hverjum einasta nýjum bíl árið 2006. Þá reyndust sex af hverjum tíu algerlega lausir við efnasambönd sem innihalda bróm. Þá eru bílar frá Ford nú með 30 prósent minna af eiturefnum í innréttingum en var árið 2009.

Og þótt ASX/Outlander Sport frá Mitsubishi sé neðarlega á lista þá hefur Mitsubishi batnað umtalsvert því að meðal Mitsubishi-bíllinn inniheldur  38 prósent minna af eiturefnum en árið 2009 og hjá Volkswagen er þetta hlutfall 42 prósent.

http://www.fib.is/myndir/Best_Worst.jpg