Eitraðir bílar
Í nýrri skýrslu frá bandarískri stofnun sem nefnist Ecology Center kemur fram að margir algengir bílar eru hlaðnir heilsuspillandi eiturefnum. Stofnunin hefur opnað heimasíðu um þessi mál sem nefnist HealthyCar.org. Þar er m.a. fullyrt að magn eiturefna í sumum bílanna sé það vel útilátið að notkun bílanna geti beinlínis valdið heilsutjóni.
Meðal eiturefna sem fundist hafa í bílunum eru bróm, klór og arsenik sem geta valdið heilaskemmdum og ófrjósemi. Að auki er vitað af slæmum áhrifum þessara efna á starfsemi hjarta og nýrna. Auk þessa hafa fundist fjölmargir þungmálmar.
Mest er hættan af þessum efnum þegar heitt er í veðri að því er kemur fram í skýrslu stofnunarinnar. Því er mælt með því að fólk lofti vel út úr bílnum áður en sest er inn í hann og ekið af stað. Þá er mælt með því að forðast að leggja bílnum þar sem sólin nær að skína á hann.
Loks er mælt með því að ryksuga bílinn oft að innan og þurrka af innanverðum rúðunum þar sem þessi efni setjast og mynda himnu sem auk þess að vera heilsuspillandi, spillir líka útsýninu.
Með því að fara inn á heimasíðu Ecology Center má fræðast meira um þetta mál. Hér að neðan birtist svo listi yfir verstu og bestu bílana hvað þetta varðar að mati stofnunarinnar.