Eitt brýnasta hagsmunamál þjóðarinnar
Vilhjálmur Árnason, alþingismaður og nefndarmaður í Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis skrifaði grein í tímaritið Þjóðmál um umferðaröryggi og samgöngur á Íslandi. Greinin er athyglisverð og fræðandi og kemur Vilhjálmur víða við í umfjöllun sinni þegar kemur að einu brýnasta hagsmunamáli þjóðarinnar, samgöngum og umferðaröryggi.
Í greininni segir Vilhjálmur að vissulega hafi innviðauppbygging og grunnþjónusta komist á blað og ber nýr stjórnarsáttmáli nýrrar ríkistjórnar þess glöggt merki og er vel. Engu að síður fær uppbygging vegakerfisins nær undantekningarlaust þá ósanngjörnu umfjöllun að þar sé um einhvern óskalista stjórnmálamanna og kjördæmapot að ræða, sem heimti mikil fjárútlát og ógni efnahagslegum stöðuleika og kalli þ.a.l. á mikla tekjuöflun fyrir ríkisjóð.
Vilhjálmur segir m.a. í pistli sínum að leiddar verði að því líkur að umferðaröryggi stuðli að auknum lífsgæðum og auknum hagvexti með stærri og öflugri atvinnusvæðum. Þá segir Vilhjálmur í grein sinni að bættar samgöngur hafi góð áhrif á margvíslegan hátt. Samgöngur skipi stóran sess í byggðauppbyggingunni, tengja sveitarfélög saman og stækka atvinnusvæðin.
Mikilvægt er að samgöngubæturnar auki umferðaröryggi og komi í veg fyrir mannlegan harmleik umferðarslysa, sem við þekkjum því miður öll. Að aka á öruggum vegum eykur lífsgæði allra. Allt þetta styður við öflugra atvinnulíf og hagræðingu í ríkisrekstri, sem stuðlar að auknum hagvexti.
Grein Vilhjálms í heild sinni má lesa hér.